mið 01. júlí 2020 09:41
Magnús Már Einarsson
Guðjón Lýðs: Var ekki sáttur fyrst
Guðjón Pétur Lýðsson.
Guðjón Pétur Lýðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég ræddi við Fylki, Víking og Stjörnuna. Það voru nokkur önnur lið sem hringdu en ég gaf ekki færi á því," sagði miðjumaðurinn Guðjón Pétur Lýðsson við Fótbolta.net í dag en hann gekk í gær til liðs við Stjörnuna á láni frá Breiðabliki.

„Ég taldi mestar líkur á að ég geti haft áhrif hjá Stjörnunni og fannst þeir vera líklegastir af þessum liðum til að verða Íslandsmeistari. Það skptir máli."

Guðjón hefur komið við sögu í öllum þremur leikjum Blika í Pepsi Max-deildinni í sumar. Hann var á bekknum gegn Gróttu og Fjölni en byrjaði gegn Fylki. Hvernig kom til að hann fór frá félaginu? „Það var upphaflega þjálfarinn sem opnaði þessa hurð. Ég var ekki sáttur fyrst en eftir fund áttaði ég mig á því að hann sér hlutina ekki eins og ég. Þá er betra að fara eitthvað annað þar sem einhver annar sér þetta líkara því sem maður sér sjálfur."

Leikmenn Stjörnunnar eru í sóttkví þangað til i næstu viku og Guðjón ætlar því að æfa með uppeldisfélagi sínu á meðan.

„Ég fer að æfa með mínum mönnum úti á Álftanesi, í hinni íslensku La Masia. Ég er ekkert eðlilega spenntur að byrja að spila með Stjörnunni. Núna verða fimm Álfntesingar í meistaraflokkshópnum og ég á nokkra topp vini í Stjörnunni. Ég er fáránlega spenntur að taka þátt í þessu með þeim."

Ólafur Jóhannesson, annar af þjálfurum Stjörnunnar, var þjálfari Guðjóns hjá Val.

„Hann kláraði að sannfæra mig um þetta. Ég átti gott spjall við Rúnar (Pál Sigmundsson) fyrir rúmu ári síðan og ég þekki þessa menn ótrúlega vel. Ég tel að við getum gert góða hluti saman. Þetta er klárlega lið sem getur unnið stóra titilinn. Þeir sem unnu hann síðast eru nokkrir ennþá þarna og líkurnar aukast eftir að ég er kominn. Það er klár stefna hjá Stjörnunni að verða Íslandsmeistari," sagði Guðjón að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner