Ummæli Lautaro Martinez, fyrirliða Inter, eftir tap liðsins gegn Fluminense í 16-liða úrslitum á HM félagsliða í gær hafa vakið mikla athygli.
„Ég vil berjast um stærstu titlana hjá Inter. Til leikmanna sem vilja vera áfram segi ég: Gott, berjumst. En til leikmanna sem vilja ekki vera áfram, farið þið. Við þurfum leikmenn sem vilja vera hérna. Við þurfum almennilegt hugarfar," sagði Martinez.
Beppe Marotta, forseti félagsins, var ekki feiminn þegar hann var spurður út í það hvað Martinez ætti við með þessum ummælum.
„Það hefur enginn sagt okkur sérstaklega að hann vilji fara. Ég ímynda mér að hann hafi verið að tala um Calhanoglu, sem við munum ræða við og leysa úr málinu á sem bestan hátt fyrir alla,“ sagði Marotta.
Calhanoglu gat ekki tekið þátt á HM félagsliða vegna meiðsla.
Athugasemdir