Zoran Daníel Ljubicic, þjálfari Keflvíkinga, var eðlilega ekki ánægður með 3-0 tap liðsins gegn Breiðablik í úrslitaleik Fótbolta.net mótsins í dag sem fór fram í Kórnum, en hann var þó ánægður með frammistöðu liðsins á mótinu.
Breiðablik vann með þremur mörkum gegn engu í dag. Viggó Kristjánsson kom Blikum yfir áður en Andri Fannar Freysson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Það var svo undir lokin sem að Ósvald Jarl Traustason skoraði þriðja og síðasta markið.
Keflavík vann alla leikina í A-riðli áður en liðið mætti Blikum í úrslitum í dag, en Zoran var í heildina ánægður með mótið.
,,Maður er aldrei sáttur með annað sætið. Mér fannst þetta skemmtilegur og góður leikur til þess að horfa á. Við fengum mjög góð færi í stöðunni 0-0 sem við klúðruðum og fáum svo á okkur mjög ódýrt mark þar sem menn gleyma sér og annað mark sjálfsmark, eftir það hættum við," sagði Zoran.
,,Við vorum að prófa marga leikmenn í dag sem er mjög jákvætt. Við vitum að þetta er bara fyrsti eða annar febrúar og þessir leikir eru til þess að læra og koma sér í stand og mér fannst við gera of mörg mistök í seinni hálfleik."
,,Þeir lögðu sig fram og maður getur ekki beðið um meira, en við hefðum átt að vera klókari í sóknarleiknum. Það vantaði betri sendingar og vorum óþolinmóðir á að halda boltanum, en þetta var fjórði leikurinn sem við spiluðum og ég vona að við náum að bæta leikinn okkar í hverjum leik."
,,Við vorum lengi vel í þessum leik, en mér fannst Breiðablik nýta þessari gjafir sem við gáfum og þeir verðskulduðu sigur og ég óska þeim til hamingju. Við verðum að halda áfram að bæta okkar leik og minnka mistök, sérstaklega á þriðja helmingnum."
,,Það er alltaf súrt að tapa, en fyrir mér eru þetta allt keppnisleikir. Við ætluðum að gera enn betur í Lengjubikarnum, en þetta kemur bara í ljós," sagði hann að lokum.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir