
Grindavík sótti HK sheim í Kórinn fyrr í dag, leikar enduðu með 3-3 jafntefli í frábærum leik. Grindavík komst yfir í 1-3 stöðu, en HK-ingar komu til baka og jöfnuðu leikinn undir lok leiks. Haraldur Árni Hróðmarsson, þjálfari Grindavíkur mætti í viðtal að leik loknum.
Lestu um leikinn: HK 3 - 3 Grindavík
„Það var eitt lið á vellinum í fyrri hálfleik og það var HK. Við vorum stálheppnir að komast inn í hálfleikinn með jafna stöðu. Við gerum mjög vel í seinni hálfleik, komumst í 1-3 stöðu í frábærum skyndisóknum og er ég hæstánægður með það. "
„Svo liggur á okkur og þegar uppi er staðið er svekkjandi að missa niður þetta forskot. En ef maður horfir í heildina getur maður verið nokkuð sáttur með stig."
Grindavík komst í betri takt í síðari hálfleik.
„Það var farið í allar klisjurnar með grunnatriði og svo framvegis. Við þurftum að verjast betur og spila einfaldari sóknarleik. Það stóð ekki steinn yfir steini í fyrri hálfleik, það var ekki nógu gott en mjög ánægður með hvernig liðið kom út í seinni hálfleik."
Fjórar umferðir eru eftir í Lengjudeildinni og er Grindavík í 8. sæti deildarinnar, þremur stigum frá fallsæti.
„Það er bara næsti leikur, hann er gegn Fylki og þeir náðu í frábær úrslit í dag. Það eru allir leikir erfiðir."
„Við þurfum bara að horfa í næsta leik og þurfum að halda áfram að safna stigum. Miðað við seinni hálfleikinn í dag er ég nokkuð bjartsýnn fyrir framhaldinu."
Athugasemdir