ÍBV vann stórkostlegan sigur á toppliði Vals á Hásteinsvelli í dag. Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, hefur verið veikur undanfarna daga en hann lét Bjarka Björn Gunnarsson, leikmann liðsins, hjálpa þjálfarateyminu á æfingu í gær.
Lestu um leikinn: ÍBV 4 - 1 Valur
„Ég er búinn að vera veikur síðustu 2-3 daga. Maður var upp í stúku innan hús að fylgjast með æfingu í gær sem Óskar tók. Þetta minnir mann á hvað það er ógeðslega gott að vera með svona góða aðstoðarmenn. Óskar Zoega og svo settum við Bjarka Björn í þjálfarateymið, hann er með fótboltaheila aldeilis. Ég gat verið rólegur og sparað röddina," sagði Láki.
Láki var virkilega ánægður með uppleggið í dag.
„Valur er fyrst og fremst skyndisóknarlið, besta skyndisóknarliðið í deildinni og svo eru þeir gríðarlega sterkir í uppsettum atriðum sem við sáum í dag. Þótt þeir skoruðu ekki eftir það voru þeir gríðarlega hættulegir. Ég ákvað að létta miðjuna og mér fannst við sterkari þar og vinna leikinn út af því."
„Við vorum ekki að falla of mikið niður í stöðunni 2-0. Við vorum alltaf að pressa öðru hvoru. Það er lykillinn á móti þessum sterku liðum, það þýðir ekkert að leggjast í vörn og bíða eftir því að eitthvað gerist. Við héldum áfram sem var mjög sterkt."
Liðið hefur náð í frábær úrslit á Háseinsvelli gegn liðum á borð við Víking, Stjörnuna og Val en Láki vill sjá betri frammistöðu á útivöllum.
„Við verðum að fara tengja tvo leiki frábæra leiki í röð. Við erum að spila frábærlega hérna heima en við náum ekki sömu stemningu upp á útivelli. Það er auðvitað frábært að menn séu með sjálfstraust á Hásteinsvelli en við verðum að fara snúa við genginu á útivelli."
Athugasemdir