Sancho á leið til Ítalíu - Bayern í viðræðum við Chelsea - Arsenal og Man Utd á eftir leikmanni PSG
   sun 17. ágúst 2025 15:00
Brynjar Ingi Erluson
England: Forest kláraði Brentford í fyrri hálfleik - Markalaust á Stamford Bridge
Chris Wood skoraði tvennu
Chris Wood skoraði tvennu
Mynd: EPA
Eze skoraði frábært aukaspyrnumark en markið dæmt af
Eze skoraði frábært aukaspyrnumark en markið dæmt af
Mynd: EPA
Joao Pedro í leiknum í dag
Joao Pedro í leiknum í dag
Mynd: EPA
Nottingham Forest fer frábærlega af stað á tímabilinu en liðið vann Brentford örugglega, 3-1, á City Ground í dag á meðan Crystal Palace og Chelsea gerðu markalaust jafntefli á Stamford Bridge.

Forest gerði út um leikinn í fyrri hálfleik. Heimamenn voru að spila glimrandi flottan fótbolta og þá sérstaklega Morgan Gibbs-White, sem var allt í öllu í liðinu.

Chris Wood var iðinn við markaskorun á síðustu leiktíð og tók upp þráðinn þar sem frá var horfið. Hann skoraði eftir hornspyrnu. Fyrst vann hann skallaeinvígi í miðjum teignum, fékk boltann aftur og stýrði honum í netið.

Undir lok hálfleiksins skoruðu Forest-menn tvö mörk til viðbótar. Svissneski landsliðsmaðurinn Dan Ndoye skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið eftir laglegan undirbúning Gibbs-White, sem kom með frábæra fyrirgjöf á Ndoye sem teygði hausinn í boltann og stangaði honum í fjærhornið.

Nokkrum mínútum síðar átti varnarmaðurinn Sepp van de Berg hrikalega sendingu á Elliot Anderson. Miðjumaðurinn kom með frábæra stungusendingu inn á Wood sem skoraði annað mark sitt í leiknum.

Verður erfitt tímabil hjá Brentford sem hefur misst marga af bestu leikmönnum sínum í sumar, en það var smá vonarglæta í liðinu í þeim síðari er Igor Thiago minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu eftir að Ibrahim Sangare handlék boltann í teignum.

Góður sigur og frammistaða hjá Forest í fyrsta leik, en ekki hægt að segja það sama um frammistöðu Brentford, sem var arfaslök.

Umdeilt atvik í markalausu jafntefli

Chelsea og Crystal Palace deildu stigunum í markalausu jafntefli á Stamford Bridge.

Fyrir leikinn var Chelsea talið líklegri aðilinn. Það vann til gullverðlauna á HM félagsliða í sumar og hafði bætt hópinn með mörgum frábærum leikmönnum, en það mun líklega taka smá tíma til að gerja liðið.

Eberechi Eze setti boltann í netið úr aukaspyrnu á 14. mínútu leiksins, en VAR skoðaði atvikið nánar og dæmdi það af. Marc Guehi ýtti Moises Caicedo í varnarveggnum, en enska úrvalsdeildin útskýrði þar af hverju markið hafi verið tekið af og það var vegna þess að Guehi var of nálægt veggnum þegar Eze tók skotið. Markið því ógilt.

Stuttu fyrir hálfleik vildu Palace-menn fá vítaspyrnu er Robert Sanchez kýldi Guehi í hnakkann eftir fyrirgjöf, en ekkert dæmt og staðan jöfn í hálfleik.

Chelsea tapaði mörgum boltum og náðu Palace menn að skapa sér færi út frá því. Hinn ungi og efnilegi Estevao kom inn á hjá Chelsea í síðari hálfleiknum.

Það eru gríðarlegir hæfileikar í honum, en þó enn mjög hrár og óreyndur. Chelsea samt klárlega með framtíðarstjörnu í höndunum.

Markalaust jafntefli var niðurstaðan í Lundúnum. Ekki byrjunin sem Enzo Maresca og lærisveinar hans vildu, en Palace-menn taka stiginu þó það hafi alveg fengið færin til þess að taka öll þrjú.

Nott. Forest 3 - 1 Brentford
1-0 Chris Wood ('5 )
2-0 Dan Ndoye ('42 )
3-0 Chris Wood ('45 )
3-1 Igor Thiago ('78 , víti)

Chelsea 0 - 0 Crystal Palace
Athugasemdir