„Þetta var fáránlegt," sagði Hallgrímur Mar Steingrímsson leikmaður KA eftir 3-3 jafntefli við Aftureldingu.
Lestu um leikinn: Afturelding 3 - 3 KA
„Við komumst þrisvar yfir í leiknum og alltaf ná þeir að jafna. Ég veit ekki alveg. Stubbur búinn að verja víti, og samt missum við þetta niður í jafntefli. Þetta er ógeðslega svekkjandi, við hefðum viljað koma hingað og sækja þrjú stig. Við ætlum okkur í efri hlutann, vonandi mun þetta stig hjálpa okkur eitthvað með það," sagði Hallgrímur.
KA liðið spilaði mjög vel í byrjun leiks, en náðu bara að skora eitt mark á þeim kafla.
„Ég bara skil ekki hvernig við settum ekki fleiri mörk á þá, á þeim tímapunkti. Við keyrðum yfir þá fyrstu 20-30 mínúturnar, síðan gáfum við smá eftir. Vorum lélegir í pressunni. Þeir eru bara vel spilandi og nýta sér það þegar við erum sofandi. Þannig við hefðum átt að nýta þessar fyrstu mínútur betur," sagði Hallgrímur.
KA er með -14 í markatölu, en eru aðeins tveimur stigum frá efri hlutanum. Með deildina svona jafna, gæti það reynst dýrt að vera með svona slaka markatölu ef KA yrði með jafn mörg stig og önnur lið þegar kemur að skiptingu.
„Markatalan gefur okkur ekki neitt, við erum með lang lélegustu markatöluna af þessum liðum sem eru í baráttunni um að vera í efri hlutanum. Næst lélegasta markatalan í deildinni. Við verðum bara að sækja stigin, það er það eina sem við getum hugsað um. Auðvitað viljum við laga markatöluna, en ég held það sé erfitt að koma henni í plús allavega fyrir skiptingu," sagði Hallgrímur.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.