„Það er alltaf gaman að vinna fótboltaleiki og gaman að spila á móti vinum sínum líka sem að gerir þetta svolítið öðruvísi,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður Stjörnunnar, eftir 2-1 sigur gegn Vestra á Samsungvellinum í dag.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 1 Vestri
Aðspurður hvernig tilfinningin var inni á vellinum þegar liðið lenti undir sagði hann:
„Við vissum að þeir yrðu erfiðir en við svo sem breyttum engu við bara héldum áfram að hlaupa aftur fyrir og opnuðum þannig svæðin og ég held við höfðum alltaf trú á því að við værum að fara að skora.“
Andri Rúnar er auðvitað sjálfur að Vestan og spilaði með Vestra á síðasta tímabili en hann fagnaði hvorugu markinu í leiknum.
„Ég var búinn að ákveða að ég myndi ekki fagna. Ég hefði ekki nennt öllum símtölunum frá Samma um að ég sé að fagna hérna á móti Vestra þannig að ég lét það bara eiga sig.“
Á föstudaginn kemur fer fram Bikarúrslitaleikur á milli Vals og Vestra en úrslit í þessum leik gætu skipt sköpum í Evrópubaráttunni en með sigri Vals verður 4. sæti Bestu deildarinnar Evrópusæti ef við gefum okkur það að Valur endi í efstu þremur sætunum í deildinni. Stjarnan situr einmitt í 4. sæti eins og staðan er í dag og græðir því heldur betur á sigri Vals á föstudaginn en með hverjum ætlar Andri að halda með í leiknum?
„Ég held með Vestra. Við tökum þá bara þriðja eða ofar.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.