Við tókum púlsinn á Gunnari Guðmundssyni, þjálfara Selfoss, í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu í gær. Selfoss hafnaði í áttunda sæti 1. deildarinnar í fyrra.
„Við höfum misst ellefu leikmenn frá síðasta tímabili en erum að tína inn nýja leikmenn. Svo eru ungu leikmennirnir árinu eldri og hafa þroskast. Þeir hafa staðið sig nokkuð vel í haust og vetur," segir Gunnar.
„Mér finnst of miklar breytingar milli ára en miðað við árið á undan er þetta á réttri átt. Ég vona að á næsta ári getum við haldið kjarnanum. Ég á vona á því að við verðum kannski með þrjá erlenda leikmenn í sumar og púslum í kringum það."
„Ég segi ekki beint að síðasta tímabil hafi verið vonbrigði en vissulega vildum við vera ofar í töflunni. Við vorum ekki með væntingar um að fara upp. Miðað við uppbygginguna sem er í gangi hjá okkur var það ekki í plönunum."
„Það var eðlilegt að okkur vantaði stöðugleika í fyrra. Liðið var algjörlega nýtt. Við áttum mjög góða leiki en töpuðum dýrkeyptum stigum gegn liðum í neðri hlutanum. Á köflum vorum við nálægt því að blanda okkur í baráttuna í efri hlutanum og ég vona að við náum að gera það í sumar. Við stefnum á að enda fyrir ofan miðju."
Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan en þar talar hann meira um leikmannamálin.
Athugasemdir





