Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
banner
   sun 02. júní 2024 21:20
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Blikar með yfirburði í sigri á HK - Umdeilt mark kom þeim á bragðið
Jason Daði skoraði fyrra mark Blika og kom sér í færi til að skora fleiri í Kórnum
Jason Daði skoraði fyrra mark Blika og kom sér í færi til að skora fleiri í Kórnum
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Ísak Snær og Aron Bjarna tengdu vel í öðru marki Blika
Ísak Snær og Aron Bjarna tengdu vel í öðru marki Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Freyr Ólafsson átti nokkrar góðar vörslur í marki HK
Arnar Freyr Ólafsson átti nokkrar góðar vörslur í marki HK
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
HK 0 - 2 Breiðablik
0-1 Jason Daði Svanþórsson ('45 )
0-2 Ísak Snær Þorvaldsson ('51 )
Lestu um leikinn

Breiðablik vann 2-0 sigur á HK í grannaslag í 9. umferð Bestu deildar karla í Kórnum í kvöld. Blikar eru þremur stigum frá toppliði Víkings eftir þessa umferð.

Leikurinn byrjaði á óhugnanlegu atviki. Eiður Gauti Sæbjörnsson lenti í harkalegu samstuði við liðsfélaga sinn, Magnús Arnar Pétursson, og steinlá hann síðan í grasinu.

Það blæddi úr nefi Eiðs sem gat gengið af velli, en var síðan settur í hálskraga áður en hann var borinn úr Kórnum og fluttur upp á spítala í frekari rannsóknir.

Það tók nokkrar mínútur að koma leiknum aftur af stað, en það voru Blikar sem voru meira og minna með öll völd.

Þeir voru töluvert meira með boltann en voru ekki að ná að skapa sér nóg.

Það var ekki fyrr en undir lok hálfleiksins sem það kom meira líf í leikinn. Blikar fengu hornspyrnu á 45. mínútu. Kristinn Jónsson kom með boltann inn í teiginn og náði Ísak að stýra boltanum á markið, en Arnar Freyr Ólafsson með frábær viðbrögð og náði að blaka boltanum af línunni.

Skömmu síðar kom fyrsta markið og var það heldur betur umdeilt og rúmlega það. Blikar fengu aukaspyrnu. Höskuldur Gunnlaugsson tók spyrnuna á meðan boltinn var enn á ferð og fram á Ísak sem stangaði hann til hliðar á Jason Daða Svanþórsson.

Jason lék á Leif Andra Leifsson áður en hann setti boltann í hægra hornið. Gott mark hjá Blikum, en samkvæmt regluverkinu átti það ekki að standa.

Blikum var svosem sama um það og héldu áfram að pressa eftir markið. Jason var hársbreidd frá því að tvöfalda forystuna en Arnar varði frábært skot hans.

Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Blikum, sem náðu síðan að bæta við í þeim síðari.

Jason kom sér í annað hættulegt færi strax í byrjun hálfleiksins en aftur var Arnar vel á verði.

Arnar, sem hafði átti stórleik, átti hins vegar að gera betur í öðru marki Blika. Aron Bjarna kom boltanum til vinstri á Ísak Snæ Þorvaldssyon sem setti boltann í hægra hornið. Arnar virtist vera með skotið, en boltinn fór í gegnum hanskanna og og skoppaði í hægra hornið.

Áfram héldu Blikar að sækja. Jason Daði fór illa með annað gott færi eftir undirbúning frá Ísaki en setti boltann vel yfir markið.

Tæpum tuttugu mínútum fyrir leikslok gat Aron Bjarnason endanlega gert út um leikinn, en setti boltann framhjá úr úrvalsfæri.

Viktor Karl Einarsson var hársbreidd frá því að skora laglegt mark á 82. mínútu. Ísak Snær átti skot við vítateiginn, sem Arnar missti út í teiginn. Viktor var fyrstur að boltanum, en snéri bakinu í markið og þurfti að vera fljótur að hugsa. Hann reyndi að hæla hann aftur fyrir sig, en boltinn lak rétt framhjá markinu.

Voðalega lítið sem hann gat gert úr þessari stöðu og alls ekki vitlaus hugmynd.

Í uppbótartíma var Dagur Örn FJeldsted nálægt því að gera þriðja markið, en setti boltann í stöngina af stuttu færi áður en Kristinn Jónsson skaut frákastinu framhjá.

Sigur Blika var sanngjarn og rúmlega það. Miklir yfirburðir gegn HK-ingum, en markið sem kom þeim á bragðið átti ekki að standa þar sem boltinn var á ferð þegar Höskuldur tók aukaspyrnuna. Hvort HK-ingar hefðu getað haldið Blikum lengur í skefjum verður að fá að liggja á milli hluta.

Blikar eru í öðru sæti með 22 stig, þremur á eftir Víkingum, en HK í 10. sæti með 7 stig.
Athugasemdir
banner
banner