Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mið 02. október 2024 21:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þetta greiðir KR fyrir Júlíus Mar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og Fótbolti.net greindi frá fyrr í kvöld þá er Júlíus Mar Júlíusson búinn að semja við KR.

Hann er keyptur til KR frá Fjölni og skrifar samkvæmt heimildum Fótbolta.net undir fjögurra ára samning í Vesturbænum.

Samkvæmt sömu heimildum greiðir KR 7,5 milljónir króna fyrir Júlíus og getur sú upphæð hækkað. Fjölnir fær svo ákveðna prósentu af söluverðinu ef Júlíus verður seldur áfram.

Valur, Víkingur og ÍA vildu einnig fá miðvörðinn efnilega og var lokabaráttan milli KR og Vals þar sem Óskar Hrafn Þorvaldsson og KR hafði betur. KR hefur haft augastað á Júlíusi í langan tíma og var fjallað um áhuga og tilboð frá félaginu fyrr í sumar.

Júlíus er tvítugur miðvörður sem á að baki þrjá leiki fyrir U19 landsliðið og var valinn í lið ársins í Lengjudeildinni fyrir frammistöðu sína í sumar.

Það er ekki hlaupið að því að finna upplýsingar um kaupverð íslenskra leikmanna en Júlíus er líklega einn dýrasti, ef ekki hreinlega dýrasti leikmaður sem KR hefur keypt.

Júlíus er svo ekki eini leikmaðurinn sem KR horfir í hjá Fjölni því markvörðurinn Halldór Snær Georgsson er á óskalistanum og í dag var tilkynnt að Óliver Dagur Thorlacius væri mættur aftur heim úr Grafarvoginum.
Athugasemdir
banner
banner
banner