Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
banner
   mán 03. júní 2024 14:46
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ótrúlegar myndir úr leik á Ólafsfirði - „Bara hneyksli fyrir KSÍ"
Mikael Nikulásson, þjálfari KFA.
Mikael Nikulásson, þjálfari KFA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum á milli KF og KFA í 2. deild um liðna helgi.
Úr leiknum á milli KF og KFA í 2. deild um liðna helgi.
Mynd: Aðsend
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum.
Úr leiknum.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir
KF vann leikinn 4-0.
KF vann leikinn 4-0.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir
Ekki eru þetta nú merkilegar aðstæður.
Ekki eru þetta nú merkilegar aðstæður.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir
'KSÍ sagði að það væri hægt að spila á honum því hann er sléttur. Getum við þá bara fundið eitthvað stórt svæði, gamla möl eða malbik, og þá megum við bara spila?'
'KSÍ sagði að það væri hægt að spila á honum því hann er sléttur. Getum við þá bara fundið eitthvað stórt svæði, gamla möl eða malbik, og þá megum við bara spila?'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er óhætt að segja að það hafi verið spilað við afar skrautlegar aðstæður þegar KF vann óvæntan 4-0 sigur á KFA í 2. deild karla um liðna helgi. Ekki var grænt gras að finna á Ólafsfjarðarvelli og var hann nánast grár.

„Ef við tökum síðustu 30 árin, þá held ég að þetta sé versti völlur sem hefur verið spilað á í íslenskum fótbolta," segir Mikael Nikulásson, þjálfari KFA, sem var gestaliðið í leiknum.

Fótbolti.net hafði samband við Mikael í dag eftir að hafa fengið mynd senda af vellinum og forvitnaðist um það hvernig hefði verið að mæta þarna í þessar aðstæður.

„Þetta er bara grasvöllur sem er ekki komið neitt gras á. KF voru greinilega ekki vissir um það hvort þeir mættu spila á vellinum. Það fór maður frá KSÍ að skoða þetta og ég fékk tölvupóst um að völlurinn hefði verið skoðaður og metinn leikhæfur. Ég talaði sjálfur við KSÍ og við manninn sem hafði verið að meta völlinn. Ég þekki hann ágætlega og það er góður maður, en ég var ekki sammála honum. Svo mættum við þarna á föstudaginn... þetta er bara hneyksli fyrir KSÍ. Það er ekki flóknara en það," segir Mikael.

Fór í taugarnar á mönnum, kannski of mikið
Hann segist skilja afstöðu KF að vilja að spila á sínum heimavelli, en aftur á móti skilur hann KSÍ engan veginn. Og miðað við myndir frá leiknum þá klárlega hægt að vera stórhissa á því að leikurinn hafi farið fram við þessar aðstæður.

„Ég skil alveg KF. Þeir vildu spila á sínum heimavelli og töldu sig væntanlega eiga betri möguleika þar. Þeir unnu okkur líka sanngjarnt og voru góðir í þessum leik. Ég er ekki að afsaka neitt tap, en það það þarf að vera viss 'standard' í þessu. Þetta er bara skömmustulegt fyrir KSÍ og það er ekkert flóknara en það. Að leyfa það að spila á þessum velli."

„Því miður fór þetta inn í hausinn á leikmönnum og við töpuðum leiknum. Það er bara eins og það er, þú getur tapað fótboltaleikjum. Ég ætla ekki að hljóma eins og ég sé bitur út af því að við töpuðum. Við vorum bara illa lélegir, ömurlegir og mjög lélegir. Þeir voru bara góðir, spiluðu góðan leik og börðust. Þeir unnu okkur sanngjarnt. Ég óska þeim til hamingju með fyllilega verðskuldaðan sigur. En þessi völlur var ekki boðlegur og auðvitað fór þetta í taugarnar á mönnum, kannski aðeins of mikið."

Bara skömm fyrir KSÍ
Mikael segist vera búinn að tjá KSÍ um sína skoðun - búinn að ræða við mann og annan - en það lítur ekki vel út fyrir íslenskan fótbolta þegar leikir eru spilaðir við þessar aðstæður. Þjálfari KFA setur spurningamerki við reglugerð KSÍ þegar kemur að vallarmálu.

„Línurnar sáust varla á vellinum og bara það á að vera nóg. Þetta er ekkert flókið, þessi völlur er ekkert leikhæfur og að KSÍ hafi metið hann leikhæfan er bara skömm fyrir þá að mínu mati. Ég er búinn að segja það við þá," segir Mikael.

„KF er að berjast fyrir sínum fyrstu stigum og þarna sáu þeir gott tækifæri til að spila á þessu. KSÍ hleypti því bara í gegn, eins ótrúlegt og það er. Þeir gátu spilað á Dalvíkurvelli og hann var laus. Ef þetta er 'standardinn' sem KSÍ ætlar að setja... þeir hafa svo sem verið að setja hann lágt alveg upp í efstu deild eins og við sáum með FH-völlinn í fyrra. Þó hann hafi örugglega verið 100 sinnum betri en þessi."

„Það er bara þannig að það virðist ekki vera neins staðar inn í leyfiskerfi KSÍ hvernig vellirnir eiga að vera en það virðist skipta rosalega miklu máli hvort það séu 200 eða 205 sæti. Fótbolti snýst um fótboltavöllinn og leikmennina sem spila á honum. Menn þurfa aðeins að fara að endurskoða hlutina í þessum málum. Þú sérð bara myndirnar."

Mike segist hafa fengið mörg skilaboð og símtöl vegna málsins þar sem fólk furðar sig á því að þarna hafi verið spilað.

„Ég veit ekki hversu margar hafa hringt í mig og sent á mig út af þessu. Það er bara skömm fyrir KSÍ að þessu hafi verið hleypt í gegn. Enda er þetta líka í fyrsta sinn að ég fæ einhvern tölvupóst áður en ég mæti á leikstað, að ég eigi að setja mig í samband við KF út af vellinum. Hingað til hefur maður bara mætt á völlinn. Eins og ég sagði við þá í KSÍ þá hefði maður verið rólegri ef þetta hefði verið Vestri eða Sindri. Því maður gerir sér grein fyrir því að þau lið þurfa að fara til Reykjavíkur eða eitthvað ef þau geta ekki spilað á vellinum sínum. Þarna var völlur við hliðina á, besti gervigrasvöllur á Íslandi, sem var klár fyrir þá. Að sjálfsögðu átti þessi leikur að fara fram þar. Það segir sig bara sjálft."

„Mér finnst frekar að KSÍ eigi að svara fyrir þetta. Það trúir þessu enginn. KSÍ sagði að það væri hægt að spila á honum því hann er sléttur. Getum við þá bara fundið eitthvað stórt svæði, gamla möl eða malbik, og þá megum við bara spila?"

Sléttur og ekki hættulegur
Fótbolti.net hafði samband við Birki Sveinsson, mótastjóra KSÍ, í dag og fékk skýringar frá honum af hverju hefði verið spilað á þessum velli.

„Það var nú bara þannig að við sendum okkar fulltrúa á völlinn. Þeir mátu völlinn þannig að hann væri sléttur og ekki hættulegur. Þar af leiðandi höfðum við engar forsendur til að banna leikinn þarna. Þetta voru svipaðar aðstæður og í Kaplakrika fyrir ári síðan. Þetta leit mjög illa út en það er ekkert í okkar reglugerð sem segir til um að hann eigi að vera grænn á litinn. Hann verður að vera sléttur og ekki hættulegur," sagði Birkir.

Jöfn og spennandi deild
Mike segir það alveg ljóst að völlurinn eigi langt í land en fróðlegt verður að sjá hvernig hann verður í næstu heimaleikjum KF.

„Ég held að Selfoss mæti þarna næst og vonandi þeirra vegna, og allra sem fylgjast með fótbolta og vilja smá gæði í þetta, þá verði völlurinnn orðinn eitthvað skárri þá. Þessi völlur á samt mjög langt í land og ekki er veðurspáin góð í þessari viku."

KFA er með sjö stig eftir fyrstu fimm leikina. Að lokum var Mike spurður út í byrjunina á tímabilinu.

„Ég er ekki sáttur við byrjunina okkar, það er alveg ljóst. Þetta var alvöru skellur, fyrsti skellurinn sem maður fær eftir að maður tók við þarna. Þetta er bara rétt að byrja. Maður vissi alveg að þetta gæti orðið jafnt. Ef þú mætir ekki klár, þá taparðu bara. Það getur allt gerst í þessari deild. Selfyssingarnir hafa byrjað vel. Besti leikurinn okkar var á móti Selfossi og við áttum að vinna þann leik. Við töpuðum þar mjög ósanngjarnt. Þeir eru með 13 stig og það er vel gert hjá þeim. Ég ætla bara að segja að allir geti unnið alla. Það kemur held ég í ljós í næstu 3-4 umferðum hvernig þetta verður," sagði Mike að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner