Amorim bíður eftir leyfi - Nkunku og fleiri orðaðir við Man Utd - Endo eftirsóttur
   þri 03. október 2023 21:03
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Man Utd og Arsenal töpuðu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Það var gríðarlega mikið líf og fjör í Meistaradeildarleikjum kvöldsins þar sem ensku úrvalsdeildarliðin Arsenal og Manchester United töpuðu sínum leikjum.

Manchester Utd 2 - 3 Galatasaray
1-0 Rasmus Hojlund ('17 )
1-1 Wilfred Zaha ('23 )
2-1 Rasmus Hojlund ('67 )
2-2 Muhammed Kerem Akturkoglu ('71 )
2-2 Mauro Icardi ('78 , Misnotað víti)
2-3 Mauro Icardi ('81 )
Rautt spjald: Casemiro, Manchester Utd ('77)

FC Kobenhavn 1 - 2 FC Bayern
1-0 Lukas Lerager ('55 )
1-1 Jamal Musiala ('67 )
1-2 Mathys Tel ('83 )

Man Utd tapaði heimaleik gegn tyrkneska stórveldinu Galatasaray, þar sem Wilfried Zaha og Mauro Icardi komust báðir á blað.

Rasmus Höjlund kom Rauðu djöflunum yfir í fyrri hálfleik en Zaha jafnaði skömmu síðar og hélst staðan jöfn þar til í síðari hálfleik.

Heimamenn voru sterkari aðilinn fyrir leikhlé en Tyrkirnir mættu grimmir til leiks í síðari hálfleikinn og nýttu færin sín. Höjlund kom Man Utd fyrst yfir á nýjan leik en Kerem Akturkoglu jafnaði skömmu síðar og svo fékk Casemiro rautt spjald fyrir klaufalegt brot innan vítateigs eftir skelfilega sendingu frá André Onana. Casemiro var sendur í sturtu en Icardi steig á vítapunktinn og klúðraði.

Argentínumaðurinn lét þó stuðningsmenn Galatasaray og liðsfélagana fyrirgefa sér þegar hann skoraði það sem reyndist sigurmarkið skömmu síðar. Tíu leikmenn Man Utd lögðu allt í sóknarleikinn á lokakafla leiksins en komu boltanum ekki í netið.

Galatasaray er með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar en Rauðu djöflarnir eru óvænt stigalausir. FC Kaupmannahöfn og FC Bayern eru einnig með í riðlinum og áttust við í Danmörku í kvöld.

Bayern hafði betur þar eftir furðu jafnan leik, þar sem heimamenn í FCK tóku forystuna en töpuðu að lokum 1-2 fyrir Þýskalandsmeisturunum.

Orri Steinn Óskarsson fékk að spila síðustu mínúturnar en tókst ekki að koma í veg fyrir tap. Bayern er með fullt hús stiga en Kaupmannahöfn er í þriðja sæti með eitt stig, og á framundan tvo leiki við Manchester United.

Lens 2 - 1 Arsenal
0-1 Gabriel Jesus ('14 )
1-1 Adrien Thomasson ('25 )
2-1 Sepe Elye Wahi ('69 )

PSV 2 - 2 Sevilla
0-1 Nemanja Gudelj ('68 )
1-1 Luuk de Jong ('86 , víti)
1-2 Youssef En-Nesyri ('87 )
2-2 Jordan Teze ('95)

Arsenal tapaði þá úti í Frakklandi þegar liðið heimsótti Lens. Gabriel Jesus tók forystuna í fyrri hálfleik en Adrien Thomasson jafnaði og var staðan 1-1 eftir jafnan fyrri hálfleik.

Heimamenn í Lens héldu vel í við Arsenal liðið og tóku forystuna með marki frá hinum eftirsótta Elye Wahi á 69. mínútu. Arsenal reyndi að sækja jöfnunarmark en tókst ekki, þar sem Frakkarnir björguðu meðal annars á marklínu til að tryggja sér stigin þrjú.

Sevilla gerði þá jafntefli útivelli gegn PSV Eindhoven eftir dramatískar lokamínútur. Nemanja Gudelj kom Sevilla yfir á 68. mínútu en Luuk de Jong, fyrrum leikmaður Sevilla, jafnaði með marki úr vítaspyrnu á 86. mínútu.

Gleði heimamanna í Eindhoven var þó skammlíf vegna þess að Youssef En-Nesyri kom Spánverjunum yfir á nýjan leik einni mínútu síðar og hélt hann hefði skorað sigurmarkið - en svo var ekki. Það var enn mikið líf í heimamönnum í PSV og gerði varnarmaðurinn öflugi Jordan Teze jöfnunarmark á 95. mínútu.

Þetta jöfnunarmark kemur sér vel fyrir Arsenal, þar sem staðan í riðlinum er nokkuð jöfn. Lens er á toppinum með fjögur stig og svo kemur Arsenal með þrjú stig.


Athugasemdir
banner
banner