mið 04. ágúst 2021 20:55
Brynjar Ingi Erluson
Missti næstum sjón eftir sýruárás - Nú á leið í ensku úrvalsdeildina
Yoane Wissa er á leið til Brentford
Yoane Wissa er á leið til Brentford
Mynd: EPA
Enska úrvalsdeildarfélagið Brentford er að ganga frá viðræðum við Lorient um franska vængmaninnn Yoane Wissa. Aðeins er rúmur mánuður frá því hann varð fyrir sýruárás eftir að kona reyndi að ræna dóttur hans.

Wissa er 24 ára gamall og fæddur í Frakklandi en ákvað að spila fyrir landslið Kongó.

Hann hefur verið á mála hjá Lorient síðustu þrjú árin. Hraði er hans helsta vopn og hafa félög um alla Evrópu verið að fylgjast með honum síðasta árið.

Samkvæmt frönskum fjölmiðlum er Brentford að ná samkomulagi við Lorient um kaup á Wissa. Hann er á leið til Lundúna til að ganga frá skiptunum en Wissa lenti í ógnvægilegu atviki í síðasta mánuði er 32 ára gömul kona reyndi að ræna dóttur hans.

Konan skvetti sýru í andlit Wissa og reyndi að nema barnið á brott en Wissa tókst að bjarga barninu áður en konan lét sig hverfa. Hún var handtekin nokkrum klukkutímum síðar. Konan hafði þegar reynt að ræna börnum frá tveimur öðrum fjölskyldum þar sem tvær manneskjur særðust alvarlega.

Wissa var heppinn að ekki fór verr. Hann þurfti þó að fara í aðgerð á augum og heppnaðist sú aðgerð vel. Wissa hefur jafnað sig að fullu og er nú tilbúinn í að reyna fyrir sér á Englandi.


Athugasemdir
banner
banner