Brunaútsala hjá Man Utd - Greenwood ætlar að hafna Barcelona - Chelsea reyndi að fá Nunez fyrir tímabilið
banner
   mán 04. desember 2023 12:24
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Grindvíkingar beygðir en ekki brotnir - „Ekkert verra en að missa mannauðinn frá sér“
Fótboltalið Grindavíkur.
Fótboltalið Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá heimavelli Grindavíkur.
Frá heimavelli Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
„Það er búið að svipta lífinu bara frá Grindvíkingum bókstaflega," segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. Í útvarpsþættinum Fótbolti.net var rætt við Hauk um það óvissuástand sem ríkir Grindvíkingum og íþróttafélagi bæjarins.

Grindavíkurbær var rýmdur í síðasta mánuði vegna kvikugangs. Framtíð bæjarfélagsins er í óvissu.

„Nú er bara biðtími hjá okkur og hann verður nokkuð langur held ég, við erum bara í miðjum klíðum ennþá. Allir Grindvíkingar verða að sýna smá þolinmæði. Það er einhver starfsemi byrjuð, sem er mjög jákvætt, en ég held að það sé langt í það að við fáum að flytja heim aftur," segir Haukur.

Grindvíkingar ofboðslega sterkir þegar þeir eru saman
Starfsemi fótboltans hjá Grindavík heldur áfram, þó flokkarnir geti ekki æft heima hjá sér.

„Anton Ingi Rúnarsson yfirþjálfari hjá okkur tók heldur betur boltann á lofti og hélt lífi í barna- og unglingastarfinu hjá okkur eins og best verður á kosið. Það er að mestu á Álftanesi og þeir hafa umvafið okkur Grindvíkinga. Meistaraflokkarnir okkar rúlla ennþá, karlarnir voru að spila æfingaleik gegn ÍBV á Álftanesi."

„Við erum beygðir en ekki brotnir og ætlum að fara á fullum krafti í þetta. Eðlilega hægist á okkur á undirbúningstímabilinu. Við hefðum viljað hafa aðstæður öðruvísi."

„Það er ekkert verra en að missa mannauðinn frá sér. Þetta er heilt bæjarfélag sem er tvístrað og fólk er víða. Það er það sem mér brennur mest. Grindvíkingar eru ofboðslega sterkir þegar þeir eru saman. Ég veit að á endanum, þegar við komumst heim aftur þá verðum við sterkari. Hvenær það verður getur enginn sagt nákvæmlega."

Öll félögin hafa haldið vel utan um okkur
Haukur segir að æfingasvæðið í Grindavík sé tjónað, sprunga er á vellinum. Keppnisvöllurinn virðist heill og einnig stúkan við hann. Eins virðist íþróttahúsið hafa haldist heilt.

„Maður biður til guðs að þetta haldi sér. Þetta fallega og glænýja íþróttahús okkar. Vonandi verður hægt að moka undir þetta og styrkja það," segir Haukur.

Ekki er vitað á þessari stundu hvort Grindavík geti spilað á heimavelli sínum á næsta tímabili.

„Ég er í sambandi við KSÍ og fengið rosalega góðar móttökur. Ég hef líka fengið rosalega góðar móttökur frá öllum félögum. FH er að hýsa Anton yfirþjálfarann okkar í Hafnarfirði, hugsið ykkur hvað félögin eru að gera vel við okkur. Öll félögin hafa tekið vel utan um okkur. Draumurinn yrði að vera með starfsemina á einum stað," segir Haukur
Útvarpsþátturinn - Grindavík, Haukur Páll og samsæriskenningar
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner