Hlusta á tilboð í Mateta næsta sumar - Mainoo efstur á óskalista Napoli - Ungur Þjóðverji á blaði hjá Liverpool og Man Utd
   fim 04. desember 2025 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Láki staðfestir ástæðuna: Mér finnst þetta asnalegt
'Ég verð að viðurkenna að ég bjóst aldrei við því að þetta yrði samþykkt af aðalstjórn þar sem hann er leikmaður'
'Ég verð að viðurkenna að ég bjóst aldrei við því að þetta yrði samþykkt af aðalstjórn þar sem hann er leikmaður'
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Alex Freyr Hilmarsson, fyrirliði liðsins, er nýr framkvæmdastjóri fótboltadeildar ÍBV.
Alex Freyr Hilmarsson, fyrirliði liðsins, er nýr framkvæmdastjóri fótboltadeildar ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég fékk alltaf út sömu útkomu og það var að þetta gengi ekki'
'Ég fékk alltaf út sömu útkomu og það var að þetta gengi ekki'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það sem stendur upp úr er að mér finnst þetta skrítið gagnvart öðrum leikmönnum, en ég hef fullan skilning á því að félagið vilji nýta krafta hans líka í eitthvað annað en að spila fótbolta'
'Það sem stendur upp úr er að mér finnst þetta skrítið gagnvart öðrum leikmönnum, en ég hef fullan skilning á því að félagið vilji nýta krafta hans líka í eitthvað annað en að spila fótbolta'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það eru skipulagsbreytingar hjá ÍBV, fyrirliði liðsins er orðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar og það var eitthvað sem ég sá bara ekki ganga upp með mig sem þjálfara," segir Þorlákur Árnason sem sagði upp störfum hjá ÍBV í gær.

Uppsögnin kom mjög á óvart, Láki framlengdi samning sinn við ÍBV í haust eftir gott fyrsta tímabil með liðið.

Alex Freyr Hilmarsson er fyrirliði ÍBV og lykilmaður í liðinu. ÍBV ákvað að ráða hann sem framkvæmdastjóra fótboltadeildarinnar.

Vissir þú af því að ÍBV ætlaði að ráða hann?

„Ég vissi að félagið hafði áhuga á því að ráða hann sem framkvæmdastjóra, ég var látinn vita af því fyrir einhverri viku síðan. Ég verð að viðurkenna að ég bjóst aldrei við því að þetta yrði samþykkt af aðalstjórn þar sem hann er leikmaður. Svo raungerist það og þá þurfti ég að setja upp í hugann, það er augljóst, hvort sem það er fyrir áhugamenn eða þá sem hafa verið í boltanum, að það eru augljósir hagsmunaárekstrar sem þú, teymið og leikmenn þurfa að vinna með. Ég fékk alltaf út sömu útkomu og það var að þetta gengi ekki."

„Það var undir mér komið að meta þetta og ég gaf þessu svolítið langan tíma. Ég komst að þessari niðurstöðu þegar ég var í Vestmannaeyjum, svaf á þessu, ákvað að fara til Reykjavíkur og sjá hvort ég hugsaði þetta einhvern veginn öðruvísi. Ég komst alltaf að sömu niðurstöðu."

„Ég skil alveg félagið að vilja nýta viðkomandi aðila sem hefur mikla hæfileika, ekki bara inn á vellinum. Alex er klár strákur sem getur gert fullt af hlutum og ég skil félagið að vera hugsa til framtíðar með því að fá hann inn í þetta. Ég er fyrst og fremst að hugsa um ÍBV liðið sem ég er að þjálfa og áhrifin þar. Það sem stendur upp úr er að mér finnst þetta skrítið gagnvart öðrum leikmönnum, en ég hef fullan skilning á því að félagið vilji nýta krafta hans líka í eitthvað annað en að spila fótbolta."


Ræddir þú mögulegt samstarf við Alex?

„Nei, alls ekki, mér fannst það ekki viðeigandi. Ef hann er að reyna fá vinnu hjá félaginu og vill það, þá ætlaði ég alls ekki að koma nálægt því. Ákvörðun mín snýst ekki um egóið mitt, það er enginn að brjóta á mér, en ég hef ekki trú á svona fyrirkomulagi og ég vil ekki framfylgja einhverju sem ég trúi ekki á. Félagið segist vera að hugsa um framtíðina og félagið og það er gott og vel, en ég þarf líka að hugsa um hvernig ég er í vinnunni fyrir ÍBV. Ég taldi, þrátt fyrir mína reynslu, að ég gæti ekki leyst þetta nægilega vel sem þjálfari."

Er eitthvað súrt á milli þín og stjórnar?

„Nei. Þetta er svo erfið ákvörðun, þetta er eitthvað sem ég vildi ekki, ég vildi ekki hætta í ÍBV. Ég er Eyjamaður og þykir rosalega vænt um Vestmannaeyjar og fólkið. Það er engin rétt leið til að gera þetta og engin rétt leið til að kveðja. Á endanum varð ég að hugsa hvort ég gæti framkvætt starfið mitt nægilega vel undir þessum kringumstæðum og svarið var bara nei, ég var ekki þjálfarinn sem myndi taka liðið lengra undir þessum kringumstæðum."

Reyndir þú að spyrja stjórnina hvort þeim fyndist þetta góð hugmynd?

„Ég er nú ekki mikið fyrir að tuða, en ég benti á hagsmunaárekstrana. Að sama skapi verður maður að virða skoðanir annarra, bæði það sem félagið vildi gera og svo leikmaðurinn. Ekki ætla ég að stoppa félagið í að gera eitthvað eða leikmanninn að fá vinnu, það er ekki mitt hlutverk sem þjálfara."

„Þegar þetta var búið að raungerast fékk ég alltaf sömu niðurstöðu. Ég er bara þessi manneskja sem ég er og mér finnst þetta asnalegt og það er bara þannig. En ég er ekki ósáttur við félagið því það gaf mér tækifæri og frábærar minningar."


Hvað tekur við?

„Tímasetningin fyrir bæði mig og félagið er ekki frábær, það er búið að ráða í öll störf á Íslandi. Það er eiginlega útilokað að fá einhverja vinnu við hæfi akkúrat núna hérna heima. Mig langar að þjálfa áfram, en auðvitað er búið að toga mig í einhver stjórnunarstörf undanfarinn áratug og auðvitað myndi ég skoða það ef það kæmi upp."

„Fyrst og fremst var ég búinn að lofa konunni minni að fara í frí með henni eftir tímabilið og hún hefur ekki gaman af þessum stormi."

„Planið er að reyna finna einhverja vinnu, mögulega eru einhverjir möguleikar erlendis. En tímasetningin er kannski ekkert frábær og desembermánuður rólegur. Það verður bara að koma í ljós hvað verður."


Tíðindin voru opinberuð í gærkvöldi, þú ert búinn að sofa á þessu í eina nótt eftir það, líður þér vel með ákvörðunina?

„Já, en þetta var ógeðslega erfitt. Ég hef aldrei gefið mér eins langan tíma í að taka ákvörðun. En alveg sama hvernig ég hugsaði þetta, niðurstaðan varð alltaf sú sama. Það var einhver kall inni í mér sem vildi að þetta myndi leysast. Ég er ekki lengur með þannig egó, mér er drullusama hvort að einhver leikmaður sé yfirmaður minn, það skiptir engu máli og mér finnst eiginlega bara húmor í því, en mér fannst ég ekki geta verið sanngjarn eða ég sjálfur gagnvart öðrum leikmönnum og þessu nýja fyrirkomulagi. Það stendur upp úr."

Svona er bara fótboltinn
Láki var þjálfari ÍBV í rúmlega eitt ár og er sáttur við ár.

„Þetta var frábært, þetta var mjög Eyjalegt ár, rússíbana ár. Svo mikið af góðum minningum, frábærir strákar í liðinu og fámennt en ofboðslega gott fólk í kringum fótboltann í Vestmannaeyjum. Þetta var æðislegt."

„En svona er bara fótboltinn, það þýðir ekkert að vera í ef og hefði, þetta fór bara svona því miður. Svona gerist, skipulagsbreytingar í fyrirtækjum hafa áhrif, ekki bara í fjölmiðlum eða hjá flugfélögum. Á endanum, eftir að hafa tekið ákvörðunina, er ákveðinn léttir. Þetta var eitthvað sem mér fannst ég ekki geta leyst,"
segir Láki að lokum.
Athugasemdir
banner