Það vakti athygli í gær að Pálmi Rafn Arinbjörnsson var í byrjunarliði Víkings í stað Ingvars Jónssonar þegar liðið mætti HK í 5. umferð Bestu deildarinnar. Pálmi var fenginn til Víkings frá Wolves í vetur og spilaði hann nokkra leiki í vetur og bikarleikinn gegn Víði í síðasta mánuði. Pálmi er fæddur árið 2003 og hefur verið nálægt U21 landsliðinu.
Víkingur tapaði 3-1 í Kórnum sem eru óvæntustu úrslit sumarsins til þessa. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, ræddi við Fótbolta.net í dag og var fyrsta spurning út í markmannsvalið.
Víkingur tapaði 3-1 í Kórnum sem eru óvæntustu úrslit sumarsins til þessa. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, ræddi við Fótbolta.net í dag og var fyrsta spurning út í markmannsvalið.
„Pælingin var einfaldlega að láta Pálma fá mínútur. Ég held hann hafi varla spilað leik í fullorðinsfótbolta á sínum ferli. Við vildum ekki lenda í þeirri stöðu að vera farnir í útileik í Meistaradeildinni og staðan þannig að Ingvar væri meiddur og þá allt í einu væri það fyrsti alvöru leikur Pálma með Víkingi. Við ræddum þetta við Ingvar," sagði Arnar.
Leikur á móti HK, neðsta liðinu, var hugmyndin að það væri mögulega fínn leikur fyrir hann að taka?
„Nei, í rauninni ekki. Í raun og veru var þetta örugglega erfiðasti leikurinn fyrir hann, inni og á kannski ekki alltof góðu grasi og þessháttar og mögulega einhver læti líka. Við vorum að pæla í leiknum á móti FH eða KA í síðustu umferð. Við mátum þetta bara sem fína tímasetningu. Pælingin var ekki að þetta væri á móti HK eða Breiðabliki."
„Hópur er ekki bara eitthvað orð sem þú talar um þegar þér hentar"
Í viðtalinu við Fótbolta.net var Arnar spurður út í mögulegt vanmat. Það vitðal má sjá í spilaranum hér neðst. Þegar horft er á bekkinn þá eru þar Nikolaj Hansen, Ari Sigurpálsson og Aron Elís Þrándarson. Sérðu eftir einhverju í liðsvalinu?
„Gott að spyrja að þessu þegar maður er búinn að tapa leiknum," sagði Arnar. „Ég hef verið frekar stöðugur í mínum skilaboðum í allan vetur. Ég veit að til þess að geta átt möguleika á því að vinna báða titlana og komast í riðlakeppni þá þarftu hóp. Hópur er ekki bara eitthvað orð sem þú talar um þegar þér hentar. Þú þarft að nota hópinn. Við erum búnir að nota hann mjög vel í sumar. Þegar þú vinnur leiki þá ertu snillingur en þegar þú tapar þá ertu hrokafullur. Það er bara gaman að svoleiðis gagnrýni, ég tek því ekkert persónulega, þetta er bara hluti af leiknum."
„Það er bara verið að vinna eftir ákveðnu plani. Stundum gengur það upp, stundum ekki. Allir strákarnir, þetta eru engin smá nöfn sem koma inn á og þeir sem fara út eru engin smá nöfn. Þeir spiluðu allir mjög vel í gær. Þetta var ekki slakur leikur, alls ekki. Leikurinn tapast eins og gengur og gerist í fótbolta og áfram gakk."
Ekki tilbúinn að kaupa að Víkingar hafi verið slakir
Er eitthvað sem Arnar horfir í og hugsar: Þetta er ástæðan fyrir því að við töpuðum?
„Það eru nokkrir hluti. Þetta fer eftir því hvaða gleraugu þú setur á þig. Að mínu mati fannst mér mörkin ódýr, mistök hjá leikmönnum sem eru lykilmenn hjá okkur. Ef HK gleraugun eru sett upp þá geta þeir alveg sagt að þetta hafi verið góð pressa sem olli því að leikmenn gerðu mistök."
„Þeir lögðu bara líf og sál í verkefnið eins og allir gera á móti öllum meisturum, sama frá hvaða landi þú ert. Ef þú ert alveg gagnrýninn og ferð yfir leikinn án allra tilfinninga og þessháttar þá vorum við töluvert sterkari aðilinn úti á vellinum en gekk bara bölvanlega að gera eitthvað við það. Það má alveg færa rök fyrir því að út af þeirra hjarta og anda þá hafi þeir átt skilið að fá eitthvað út úr leiknum."
„Að við höfum verið slakir er ekki eitthvað sem ég er alveg tilbúinn að kaupa."
Fóru í fimm manna línu
HK-ingar komu Víkingum aðeins á óvart í gær með sinni nálgun.
„Þeir voru með virkilega gott leikplan. Það kom á óvart að þeir fóru í 5-4-1. Þetta er lið og þjálfari sem spilar mjög 'dominant' 4-2-3-1 og stundum 4-1-4-1. Það kom á óvart að hann fór í fimm manna línu. Það hefur svo sem alveg viljað vera þannig hjá liðum á móti okkur að þau fari í svoleiðis kerfi. Alveg sama hvort þú ert (Manchester) City eða Víkingur, það er erfitt að spila á móti svoleiðis kerfi. Það reynir lúmskt á öðruvísi hugarfar hjá leikmönnum hvernig á að reyna að brjóta vörnina á bak aftur. Það þarf að vera svolítið þolinmóður. Við höfum verið sterkir í því undanfarin og ekki henda leiknum frá okkur. Um leið og þetta er komið í 2-0 þá erum við farnir að elta og menn kannski farnir að örvænta svolítið. Það var svolítið raunin í gær."
„Leyfum þessu að njóta vafans þangað til"
Hvernig voru viðbrögð Ingvars við því að vera settur á bekkinn?
„Þau voru mjög góð. Þegar ég tilkynni leikmönnum svona þá eru viðbrögðin mjög góð, en innst inni ertu ekkert hrifinn af því, annars væri sá aðili ekki keppnismaður. Ég vona að allir séu með í þessu hópverkefni, þetta er ekki ellefu manna verkefni. Það er vika á milli leikja og menn kannski spyrja sig af hverju það er ekki bara sama byrjunarliðið. Þetta snýst ekki um það heldur snýst um að leikmenn séu búnir að fá mínútur þegar vitleysan (leikjaálagið) byrjar í júlí. Þá fara hlutirnir virkilega að skipta miklu máli."
„Svo verður bara talið upp úr kössunum í haust, hvort að þetta hafi verið mistök eða ekki. En leyfum þessu aðeins að njóta vafans þangað til."
Mikill andi og mikið hungur gegn meisturunum
Náði einhver einstaka frammistaða hjá HK að heilla Arnar?
„Ég hef alltaf gaman af því að sjá unga stráka spila vel. Hægri bakvörðurinn (Kristján Snær Frostason) og sá sem skoraði (Magnús Arnar Pétursson), þeir eru mjög ungir og það var gaman að sjá þá spila og þeir voru komnir með krampa í leiknum. Svo voru gamlir refir sem stóðu sig vel. Það var mikill andi í þeim. Ég segi ekki að það hafi verið virkilega gaman að sjá þá vinna okkur, en það verður að viðurkennast að þeir voru virkilega hungraðir."
„Ég ætla ekki að saka þá um að hafa ekki verið jafn hungraðir í hinum leikjunum, en það er bara - sama hvað hver segir - alveg sama hvort það sé Víkingur, Breiðablik fékk að kynnast því í fyrra og öll lið sem verða meistarar sama hvar í heiminum, það er eitthvað auka við að spila á móti meisturum. Það er eitthvað sem við vitum af og erum að vinna með dagsdaglega," sagði Arnar.
Næsti leikur Víkings er gegn FH um næstu helgi. Liðin eru jöfn á toppnum með 12 stig úr fyrstu 5 leikjunum.
Athugasemdir