
'Markmiðið hjá mér sjálfum var alltaf að taka skrefið út í sumar og ég er þakklátur KR og Óskari fyrir að hjálpa mér að láta það rætast'

'Ég og Bjarki vorum búnir að ákveða það saman fyrir tímabilið að ég væri ekki að fara í annað lið á Íslandi og stefnan var út'
Jóhannes Kristinn Bjarnason var í síðustu viku keyptur til danska félagsins Kolding frá KR. Strax á föstudag kom hann við sögu með liðinu í dönsku B-deildinni og í gær var hann í byrjunarliðinu og skoraði annað mark liðsins í öruggum 4-0 bikarsigri.
Jói, eins og hann er oft kallaður, er tvítugur miðjumaður sem átti mjög gott undirbúningstímabil með KR og skoraði sex mörk í fimmtán deildarleikjum. Hjá Kolding hittir Jói fyrir Ara Leifsson sem gekk í raðir félagsins fyrir einu og hálfu ári síðan. Jói skrifar undir fjögurra ára samning við félagið.
Jói, eins og hann er oft kallaður, er tvítugur miðjumaður sem átti mjög gott undirbúningstímabil með KR og skoraði sex mörk í fimmtán deildarleikjum. Hjá Kolding hittir Jói fyrir Ara Leifsson sem gekk í raðir félagsins fyrir einu og hálfu ári síðan. Jói skrifar undir fjögurra ára samning við félagið.
Stefnan að fara upp í dönsku úrvalsdeildina
„Geggjuð tilfinning að vera kominn í Kolding, þjálfarinn heillaði mjög mikið, leikstíll hans og líka stefna félagsins," segir Jói.
Er erfitt að fara frá KR á þessum tímapunkti? „Það er alltaf erfitt að fara frá KR, sama hvað."
Hvað getur þú sagt um leikstílinn og stefnuna?
„Það sem ég hef tekið eftir er að það er mikið spilað í gegnum miðjuna, ég þarf svo að kynnast stílnum enn betur. Stefna félagsins er að komast upp i efstu deild og langtímastefnan er að búa til sterkt einkenni."
Jói fór ungur að árum til Norrköping frá KR en sneri aftur fyrir tímabilið 2023. Var alltaf markmiðið að fara aftur út?
„Já, síðan ég kom heim hefur stefnan alltaf verið aftur út."
„Áður en ég tók ákvörðun átti ég fund með þjálfaranum og íþróttastjóranum hjá Kolding. Síðan ræddi ég þetta vel við umboðsmanninn minn Bjarka Má. Þetta gerðist allt mjög hratt þannig ég náði ekki að ræða við Ara Leifs áður en ákvörðunin var tekin."
EIns og Jói segir þá gerðist þetta allt mjög hratt. Greint var frá yfirvofandi félagaskiptum á sunnudegi og hann kynntur sem leikmaður danska B-deildar félagsins á sunnudegi. Kolding er félag sem ætlar sér upp og ljóst að góð spilamennska með liðinu er góður gluggi fyrir enn stærra skref í framtíðinni.
Ákvað að stíga út úr viðræðunum við Pro Vercelli
Í aðdraganda félagaskiptanna var miðjumaðurinn orðaður við Pro Vercelli í ítölsku C-deildinni. Hann fór út og kannaði aðstæður en ákvað að fara ekki lengra með það tilboð. Hann var einnig orðaður við norska félagið HamKam.
„Pro Vercelli hafði kynnt verkefnið fyrir mér og það hljómaði vel. Ég var samt alltaf með þann fyrirvara að ég fengi að heimsækja félagið og skoða aðstæður áður en við myndum taka næstu skref. Þegar ég fór út sá ég mig einfaldlega ekki passa inn í þetta umhverfi á þessum tímapunkti á mínum ferli. Eftir að hafa kynnt mér þetta vel ákvað ég að stíga út úr ferlinu."
„Á sama tíma vissi ég af áhuga HamKam sem ég vildi skoða betur án þess að taka ákvörðun í flýti. Við tókum samtalið en svo kom Kolding inn í myndina stuttu seinna og mér fannst verkefnið sem þeir kynntu tikka í flest box hjá mér."
Aldrei á leið í annað lið á Íslandi
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hafði Valur áhuga á því að fá Jóa til sín og þar sem hann átti stutt eftir af samningi sínum hefði Valur getað sett sig í samband við KR og látið vita að félagið ætlaði að ræða við Jóa. Hafði Valur samband við hann?
„Ég og Bjarki vorum búnir að ákveða það saman fyrir tímabilið að ég væri ekki að fara í annað lið á Íslandi og stefnan var út. Þannig það er ekkert sem ég veit af varðandi Val."
Varðandi samninginn, kom einhvern tímann til greina að framlengja við KR?
„Við áttum samtal í byrjun árs en svo þegar tímabilið byrjaði setti ég bara fullan fókus á að spila og standa mig vel. Markmiðið hjá mér sjálfum var alltaf að taka skrefið út í sumar og ég er þakklátur KR og Óskari (Hrafni Þorvaldssyni) fyrir að hjálpa mér að láta það rætast."
Gott að geta líka leyst bakvörðinn
Jói spilaði inn á miðsvæðinu hjá KR í vetur og á þessu tímabili. Þar á undan hafði hann spilað talsvert í hægri bakverði.
„Mér líður betur á miðjunni en það er ekkert að því að spila sem bakvörður. Mér finnst það gaman og gott að geta gert bæði."
Tveir klobbar í fyrsta markinu fyrir Kolding
Í gær vann Kolding lið Odense KFUM 0-4 í 1. umferð danska bikarsins. Jói skoraði annað mark liðsins.
„Það er geggjað að vera búinn að opna reikninginn, ég fékk boltann rétt fyrir utan teig, klobbaði varnarmanninn og klobbaði síðan markmanninn," segir Jói
Hann býr sem stendur á hóteli en það styttist í að hann fái íbúð. Næsti leikur verður gegn Breka Baldurssyni og félögum í Esbjerg á laugardaginn.
Athugasemdir