David Ornstein, áreiðanlegasti blaðamaðurinn þegar kemur að félagaskiptafréttum, segir í morgunsárið frá því að Manchester United sé að færast nær kaupum á Benjamin Sesko, sóknarmanni frá RB Leipzig.
Man Utd hefur verið að berjast við Newcastle um kaup á Slóvenanum en bæði félög hafa gert tilboð í hann.
Ornstein segir hins vegar núna frá því að Sesko vilji fara til Man Utd og allir aðilar séu meðvitaðir um það.
Tilboð Newcastle upp á 85 milljónir evra í Sesko var í gær samþykkt af Leipzig en leikmaðurinn er með augastað á Man Utd og mun að öllum líkindum fara þangað.
Samkvæmt Ornstein vill Sesko frekar fara til Man Utd þrátt fyrir að Newcastle sé á leið í Meistaradeildina og sé tilbúið að borga honum hærri laun. Hræðilegur félagaskiptagluggi Newcastle heldur áfram en félaginu hefur ekki gengið að sækja þá leikmenn sem það hefur viljað í sumar. Stærri félög hafa komið inn og haft betur í baráttunni.
Man Utd hefur ekki enn náð samkomulagi við Leipzig en það stefnir í að samkomulag náist.
Sesko, sem er 22 ára, hefur skorað 39 mörk og lagt upp átta fyrir Leipzig í 87 leikjum.
Athugasemdir