„Ég hefði viljað fá öll þrjú stigin hérna í dag," sagði Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra eftir 1-1 jafntefli við Aftureldingu.
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 1 Vestri
„Mér fannst við góðir í fyrri hálfleik, betri aðilinn í fyrri hálfleik. Mér fannst við ógna markinu þeirra, töluvert meira en þeir ógnuðu markinu okkar. Það er það sem skiptir máli í þessu. Hins vegar fannst mér þegar fór að líða aðeins á seinni hálfleikinn, þá fannst mér orkustigið í liðinu aðeins dvína. Mér fannst við taka það með okkur inn í seinni hálfleik. Mér fannst við aldrei ná neinum takt í seinni hálfleik, án þess þó að þeir ógnuðu okkur að neinu ráði. Svo skorum við mark, sem mér fannst vera löglegt mark. Ég skal samt viðurkenna að ég er ekki búinn að sjá það aftur, en mér fannst það gríðarlega tæpt. Þeir fá svo víti sem fyrir mitt leiti, held ég að sé víti, en mér fannst það samt 'soft'. Sóknarmaður Aftureldingar var aldrei líklegur að ná boltanum, en við erum auðvitað klaufalegir, það er snerting. Eftir að þeir skoruðu fannst mér þeir taka öll völd á leiknum," sagði Davíð.
Vestri heldur 6. sætinu með þessu stigi og koma sér sex stigum frá fallsætinu.
„Það er ennþá jafn langt í Aftureldingu eins og var fyrir þennan leik. Við erum auðvitað að koma hérna á mjög góðan, og erfiðan útivöll, á móti sterku liði Aftureldingar. Við vissum það fyrir leik, að Afturelding tjaldaði öllu til og ætluðu sér að ná í þrjú stig hérna í dag, en tókst það ekki. Þannig að við verðum bara að vera sáttir með þetta stig, úr því sem komið var. Enn og aftur samt, ég er mjög svekktur með að hafa skorað tvö mörk, eins og ég segi ef þetta var rangstaða þá verð ég bara að gefa fullt kredit á línuvörðinn, því það var ofboðslega tæpt fannst mér," sagði Davíð.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.