mið 06.ágú 2025 11:53 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

UTAN VALLAR: Fjármálin á bakvið félagaskipti Birnis Snæs
Birnir Snær Ingason skrifaði undir hjá KA á dögunum og sögur segja að hann fái rúmlega 15 milljónir króna í sinn hlut frá KA. Eru þetta fjárhagslega sniðug félagaskipti frá bæjardyrum KA séð? Skoðum peningana á bakvið samninginn.
Greinin var einnig birt á utanvallar.is
Samningurinn
Birnir skrifaði undir samning út tímabilið en samningurinn sjálfur hefur ekki ennþá verið skráður inn á vef KSÍ. Við skulum því gera ráð fyrir því að samningurinn renni út 16. nóvember, en það er algeng lokadagsetning á leikmannasamningum. Birnir fékk leikheimild 19. júlí með KA og því er lengd samningsins 121 dagur.
Miðað við 15 milljón króna launapakka þá er hægt að áætla kostnaðinn sem:
123.967 kr. á dag
867.769 kr. á viku
3.719.008 kr. á mánuði
Fallbaráttudraugur
KA er í fallbaráttu og ef félagið fellur niður um deild í lok tímabils blasir við þeim tekjutap. Það vill svo heppilega til að ársreikningur knattspyrnudeildar Vestra er sundurliðaður í meistaraflokk karla, meistaraflokk kvenna og yngri flokka. Karlaliðið komst upp úr Lengjudeildinni sumarið 2023 og spilaði í Bestu deild karla sumarið 2024 og því höfum við gott dæmi um tekjumuninn á milli þessara tveggja deilda. Í rekstrarreikningi meistaraflokks karla hjá Vestra má að rekstrartekjur meistaraflokks karla voru 45.971.204 krónum hærri árið 2024 en árið á undan. Ef við notum þetta sem viðmið þá gæti KA verið að horfa á tekjutap upp 46 milljónir króna, ef félagið myndi falla úr Bestu deild karla.
Evróputekjur
KA tók þátt í undankeppni Sambandsdeildarinnar á þessu tímabili. Félagið sat hjá í 1. umferð og mætti svo danska liðinu Silkeborg IF í 2. umferð en laut í lægra haldi. Samkvæmt greiðsluáætlun fyrir 2025/26 tímabilið í félagsliðakeppnum UEFA fær lið sem dettur út í 2. umferð í undankeppni Sambandsdeildarinnar 350 þúsund evrur auk 175 þúsund evrur fyrir hverja umferð sem er spiluð. Þar sem KA spilaði einungis eina umferð í ár fær það samtals 525 þúsund evrur. Það eru rúmlega 75 milljónir króna á núverandi gengi, en þessi fjárhæð verður þó greidd til félagsins í lok september og því gæti hún sveiflast örlítið með genginu.
Á KA efni á þessum samning?
Samkvæmt 2024 ársreikningi KA átti félagið 34,8 milljónir króna í handbært fé í árslok. Þar að auki átti félagið verðbréf að verðmæti 37,8 milljónum króna sem væri líklega hægt að selja á skömmum tíma. Félagið á því klárlega nægt fé á hendi til þess að borga Birni Snæ há laun. Þá stendur félagið ekki í miklum skuldum en skuldahlutfallið var 22,7% á síðasta ári. Því er ljóst að skuldir knattspyrnudeildarinnar eru ekki hamlandi hvað þessi félagaskipti varðar. Í ljósi tekjutapsins sem myndi blasa við KA ef félagið félli niður um deild þá er það alls ekki heimskulegt að taka sénsinn á Birni Snæ Ingasyni þar sem félagið á efni á þessum launapakka.