The Times greinir frá því að Manchester United sé reiðubúið til að selja danska framherjann Rasmus Höjlund fyrir svo lítið sem 30 milljónir punda.
Höjlund hefur ekki staðist væntingar hjá Man Utd og er aðeins kominn með 26 mörk í 95 leikjum frá félagaskiptunum fyrir tveimur árum síðan.
Rauðu djöflarnir borguðu um 65 milljónir til að kaupa Höjlund úr röðum Atalanta sumarið 2023.
Þrátt fyrir slakt gengi líður Höjlund mjög vel í Manchester og er hann staðráðinn í að berjast um sæti í byrjunarliðinu.
Hann var í baráttu við Joshua Zirkzee um byrjunarliðssæti í fremstu víglínu en núna hafa Bryan Mbeumo og Matheus Cunha bæst við hópinn og gæti Benjamin Sesko einnig verið á leiðinni inn.
„Ég þarf að halda áfram að leggja mikla vinnu á mig og vera einbeittur að mínum markmiðum. Ég vil vera áfram hérna og berjast um sæti í liðinu," sagði Höjlund meðal annars á fréttamannafundi á dögunum.
Athugasemdir