Ísland mætir Hvíta Rússlandi í undankeppni HM 2023 í dag klukkan 16:00 en leikstaðurinn er heldur óvenjulegur, Belgrad í Serbíu.
Ástæðan er sú að UEFA hefur bannað Hvíta Rússlandi að spila á sínum eigin heimavelli á meðan landið styður Rússland í stríðsrekstri í Úkraínu. Það sem meira er, það má ekki heldur hafa áhorfendur á leikjum liðsins.
Því má búast við að bara fulltrúar liðanna sjálfra og fjölmiðla verði á svæðinu en Fótbolti.net er eini íslenski fjölmiðillinn sem fylgir íslenska liðinu eftir hér í Serbíu og svo í Tékklandi í kjölfarið.
Völlurinn sjálfur er heldur óvenjulegur þó svo slíkir vellir þekkist annars staðar í heiminum. Ástæðan er að völlurinn er ofan á stórri verslunarmiðstöð sem er á fjórum hæðum en þetta sést a meðfylgjandi myndum.
Miðað við staðsetningu verslanna undir vellinum er McDonald's staður beint fyrir neðan annað markið en fyrir neðan hitt markið er H&M verslun.
Völlurinn sjálfur er heimavöllur FK Vozdovac sem leikur í efstu deild í Serbíu. Hann tekur 5175 í sæti en sem fyrr segir verða þau öll tóm þegar leikurinn fer fram í dag.
Þjálfari FK Vozdovac er Alesandar Linta sem spilaði hér á landi í fjölda ára, meðal annars með ÍA og Þór en hann hóf þjálfaraferil sinn á Grundarfirði.
Fleiri myndir af vellinum eru að neðan.