Íslendingarnir í Brann eru úr leik í norska bikarnum eftir að hafa tapað fyrir Bryne, 2-1, eftir framlengingu í kvöld.
Brann er heitasta lið norsku deildarinnar í ár en Freyr Alexandersson, þjálfari liðsins, gerði alls fimm breytingar frá deildarsigrinum gegn Vålerenga.
Bryne tók forystuna í fyrri hálfleik en Brann kom sér í framlengingu er varamaðurinn Bard FInne jafnaði fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.
Heimamenn í Bryne náðu að skora sigurmarkið á 118. mínútu í framlengingu og koma sér áfram í 16-liða úrslit bikarsins, en Brann úr leik. Eggert Aron kom inn af bekknum hjá Brann á 81. mínútu leiksins.
Brynjar Ingi Bjarnason var í vörn Ham/Kam sem vann Lyn 2-0 á útivelli. Viðar Ari Jónsson kom inn af bekknum hjá Ham/Kam.
Sveinn Aron Guðjohnsen heldur þá áfram að raða inn mörkum í bikarnum en hann skoraði tvö í 3-1 sigri Sarpsborg á Stefáni Inga SIgurðarsyni og félögum í Sandefjord.
Sveinn hefur skorað í öllum þremur bikarleikjum Sarpsborg á tímabilinu og er með fjögur mörk. Stefán Ingi sat á bekknum hjá Sandefjord en kom ekkert við sögu.
Ísak Snær Þorvaldsson sneri þá aftur með stæl inn í lið Rosenborg sem vann Tromsdalen, 5-0.
Framherjinn hefur verið að glíma við meiðsli síðustu vikur en hann kom inn í hópinn í dag og var síðan skipt inn á í hálfleik. Fimmtán mínútum síðar skoraði hann fimmta og síðasta mark Rosenborg í leiknum til að gulltryggja liðið áfram í 16-liða úrslitin.
Athugasemdir