mið 07. júní 2023 15:51
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hefur allt sem þarf að hafa - „Þurfum bara að halda honum við efnið"
Þegar hann er ákafur í varnarleiknum sínum þá er Finnur bara geggjaður.
Þegar hann er ákafur í varnarleiknum sínum þá er Finnur bara geggjaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við þurfum bara að halda honum við efnið, fá hann til að leggja svona mikla vinnu í hvern einasta leik og hlaupa leikinn eins og maður.
Við þurfum bara að halda honum við efnið, fá hann til að leggja svona mikla vinnu í hvern einasta leik og hlaupa leikinn eins og maður.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Finnur Tómas Pálmason hefur spilað vel í undanförnum leikjum með KR og virðist vera að finna sig vel í nýja leikkerfi KR þar sem þrír miðverðir eru saman í öftustu línu. Finnur hefur þar smá frjálsræði til að keyra upp völlinn þegar hann sé færi á því.

Nafnið Finnur Tómas var á allra vörum tímabilið 2019 þegar hann lék við hlið Arnórs Sveins Aðalsteinssonar í Íslandsmeistaraliði KR. Um haustið var hann valinn besti ungi leikmaðurinn.

Hann var keyptur til Norrköping í Svíþjóð eftir tímabilið 2020 en náði ekki að festa rótum þar, lék á láni hjá KR tímabilið 2021 og var svo keyptur til baka fyrir tímabilið í fyrra. Hann náði ekki að toppa tímabilið 2019 og var talsvert gagnrýndur fyrir sínar frammistöður síðustu tímabil. Auk þess glímdi hann við meiðsli sem héldu honum frá vellinum.

Núna hefur hann náð kafla þar sem hann er að sýna virkilega hversu megnugur hann er. Hann býr yfir miklum hraða og er oftast með staðsetningar upp á tíu.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var spurður út í Finn og leikkerfið í viðtali eftir bikarsigurinn gegn Stjörnunni í gær.

„Eftir fyrsta leikinn þar sem menn voru að meðtaka hvað við værum að fara gera þá erum við að vaxa, erum að verða betri, strákarnir eru að skilja þetta betur. Við höfum spilað þetta kerfi áður en það er eitt að spila þetta á svona velli og annað að spila þetta á gervigrasi þar sem hægt er að láta boltann rúlla aðeins meira. Við höfum átt mjög góða kafla inn á milli en höfum líka verið slakir og látið spila í kringum okkur. Við erum ekkert fullmótaðir í þessu kerfi, eigum eftir að bæta okkur."

Erum við að sjá sama gamla Finn Tómas núna?

„Þegar hann er ákafur í varnarleiknum sínum þá er Finnur bara geggjaður. Hann hefur gríðarlegan hraða og styrk og er sterkur í loftinu - hann hefur allt. Við þurfum bara að halda honum við efnið, fá hann til að leggja svona mikla vinnu í hvern einasta leik og hlaupa leikinn eins og maður. Þá er hann góður," sagði Rúnar.

Finnur Tómas er 22 ára miðvörður sem uppalinn er í KR. Hann lék sína fyrstu keppnisleiki í meistaraflokki á láni hjá Þrótti tímabilið 2018.

Undirritaður valdi Finn Tómas mann leiksins gegn Stjörnunni í gær.
Ánægður með viðbrögðin eftir höggið: Sá löngunina í augunum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner