Það vekur athygli að Sandra Sigurðardóttir er í A-landsliðshópi kvenna fyrir komandi leiki í Þjóðadeildinni gegn Wales hér heima og Þýskalandi ytra.
Sandra ákvað að leggja hanskana á hilluna frægu fyrr á þessu ári, en hún sneri svo aftur í sumar. Hún spilaði tvo leiki með Grindavík á neyðarláni og hefur svo leikið einn leik með Val þar sem hún varamarkvörður fyrir Fanneyju Ingu Birkisdóttur, sem er einnig í landsliðshópnum.
Þorsteinn Halldórsdóttir, landsliðsþjálfari, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag og útskýrði þar val sitt.
„Mesta umræðan verður væntanlega um endurkomu Söndru," sagði Þorsteinn fyrst.
Svo sagði hann: „Hún kemur aftur inn þrátt fyrir að vera ekki búin að spila mikið undanfarið. Síðan ég tók við liðinu hef ég verið að vinna í því að reyna fjölga möguleikum okkar varðandi markverði... Cecilía hefur spilað stórt hlutverk hjá okkur í undankeppninni síðast og við höfum verið þannig séð að undirbúa það að hún taki við af Söndu. Að sama skapi höfum við verið að undirbúa Telmu (Ívarsdóttur) í að vera með Cecilíu í þessu. Svo meiðist Cecilía og þá sátum við uppi með markmann með fjóra landsleiki og það var ekki til annar markvörður á landinu með landsleik."
Sandra kemur inn með reynslu í þetta verkefni, en hópurinn hefur tapað mikilli reynslu undanfarna mánuði.
„Hún er búin að æfa síðustu átta vikur á fullu. Ég taldi það vera betra fyrir markverðina að þeir fengju stuðning frá henni, og að hún yrði partur af þessu. Við erum að fara inn í krefjandi leiki og ef eitthvað kemur upp, þá erum við kannski með markverði til taks sem eiga enga landsleiki. Það er ekki draumastaða þó það geti gengið upp. Ég vildi hafa þennan varnagla, að Sandra væri til taks."
Aðrir markverðir í Bestu deildinni eins og til dæmis Aldís Guðlaugsdóttir úr FH og Guðný Geirsdóttir úr ÍBV hafa verið að spila vel. Þorsteinn var spurður út í skilaboðin til þeirra að Sandra komi inn í hópinn eftir að hafa spilað einn leik í Bestu deildinni í sumar.
„Markvarðarstaðan er þannig að þér og markverðinum líði vel með þær aðstæður sem þær fara út í. Það er fullt af markvörðum sem hafa spilað vel og aðrir misjafnir. Ég vil fara inn í verkefnið með ákveðna reynslu, mér finnst það skipta gríðarlega miklu máli. Þegar að maður er þjálfari þá þarf maður að taka erfiðar ákvarðanir, ég stend og fell með minni ákvörðun. Ég hef rætt þetta við marga í kringum mig og það hefur enginn sagt við mig neitt annað en að þetta sé rétt hjá mér," sagði Þorsteinn.
Aðspurður að því hvort Sandra yrði aðalmarkvörður í þessu verkefni, þá sagði Steini að það kæmi í ljós.
Athugasemdir