Fernandes gæti farið frá Man Utd á næsta ári - Stórliðin berjast um Guehi - Fer Andrey Santos frá Chelsea?
   sun 07. september 2025 07:28
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Algjör óvissa" með frekari þátttöku lykilmanns ÍA
Erik Tobias glímir við meiðsli sem hafa haldið honum frá vellinum.
Erik Tobias glímir við meiðsli sem hafa haldið honum frá vellinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Már lék í hjarta varnarinnar gegn ÍBV í síðasta leik ÍA.
Rúnar Már lék í hjarta varnarinnar gegn ÍBV í síðasta leik ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Tobias Sandberg, miðvörður ÍA, er að glíma við meiðsli sem héldu honum frá vellinum þegar ÍA mætti ÍBV í síðustu umferð. Það ríkir óvissa um hvort hann muni snúa aftur til baka á þessu tímabili.

Norski miðvörðurinn átti mjög gott tímabil með ÍA í fyrra þegar hann spilaði sitt fyrsta tímabil á Íslandi. Hann var eftirsóttur af öðrum félögum og hafði t.d. Valur mikinn áhuga á að fá hann í sínar raðir, en hann skrifaði undir nýjan samning við ÍA. Sandberg hefur, eins og í raun allt ÍA liðið, ekki náð að fylgja þeirri spilamennsku eftir, en hann er lykilmaður í liði Skagamanna sem situr á botni Bestu deildarinnar.

„Staðan á honum er alls ekki góð, algjör óvissa með framhaldið hjá honum. Í fyrri hálfleik á móti Víkingi (17. ágúst) fær hann högg á öxlina eða síðuna. Fyrr í sumar fékk hann eins högg og þá missti hann máttinn í hendinni í einhverja daga. Þegar þetta gerðist í Víkingsleiknum þá voru menn vongóðir að þetta myndi ganga til baka, en það er ekki að gera það. Þetta er einhverskonar taugaáverki Þetta getur tekið frá einhverjum dögum upp í vikur og jafnvel mánuði að ganga til baka. Hann hefur ekki fullan kraft í hendinni, getur ekki beitt hendinni," segir Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, við Fótbolta.net.

Sandberg var ekki með gegn ÍBV í síðasta leik og í hjarta varnarinnar spiluðu Rúnar Már Sigurjónsson og Marko Vardic. Baldvin Þór Berndsen var í leikbanni, Hlynur Sævar Jónsson fjarri góðu gamni vegna meiðsla og ÍA seldi Oliver Stefánsson til Póllands í glugganum.

„Þetta hefur farið úr því að við áttum nóg af hafsentum í það að við áttum engan í leiknum gegn ÍBV. Marko er vanur að spila hafsent og með honum settum við Rúnar sem hafði spilað 20-30 mínútur á sínum ferli í hafsent, stóð sig nokkuð vel miðað við það. Baldvin snýr til baka úr banni fyrir næsta leik og það styttist í Hlyn, hann hefur ekkert æft síðan hann meiddist gegn FH (11. ágúst). Við vonumst til þess að Hlynur snúi til æfinga núna í vikunni og það er spurning hvort hann nái leiknum á fimmtudaginn gegn Blikum," segir Lárus Orri.

Sandberg, sem er 25 ára Norðmaður, er samningsbundinn ÍA út nóvember 2026. Stöðuna í deildinni má sjá hér að neðan.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Valur 21 12 4 5 52 - 33 +19 40
2.    Víkingur R. 21 11 6 4 40 - 27 +13 39
3.    Stjarnan 21 11 4 6 41 - 34 +7 37
4.    Breiðablik 20 9 6 5 36 - 31 +5 33
5.    FH 21 8 5 8 39 - 33 +6 29
6.    Fram 21 8 4 9 30 - 29 +1 28
7.    ÍBV 21 8 4 9 23 - 27 -4 28
8.    Vestri 21 8 3 10 22 - 24 -2 27
9.    KA 21 7 5 9 25 - 38 -13 26
10.    KR 21 6 6 9 42 - 44 -2 24
11.    Afturelding 21 5 6 10 28 - 36 -8 21
12.    ÍA 20 5 1 14 20 - 42 -22 16
Athugasemdir