Mainoo gæti farið til Napoli - Man Utd horfir til Emery ef Amorim verður rekinn - Bayern vill Guehi
   þri 07. október 2025 19:57
Brynjar Ingi Erluson
Segir að Wirtz muni yfirstíga erfiðleikana - „Stórkostlegur fótboltamaður og frábær karakter“
Florian Wirtz hefur farið hægt af stað hjá Liverpool
Florian Wirtz hefur farið hægt af stað hjá Liverpool
Mynd: EPA
Þýska goðsögnin Rudi Völler segist ekki hafa áhyggjur af formi landa síns, Florian Wirtz, og að bráðlega muni hann sýna sínar bestu hliðar með Liverpool.

Wirtz hefur ekkert farið neitt sérlega vel af stað með Liverpool síðan hann kom frá Bayer Leverkusen fyrir metfé í sumarglugganum.

Þjóðverjinn hefur ekki enn komið að marki í keppnisleik með liðinu og virkað týndur í mörgum leikjum. Wirtz átti flottan síðari hálfleik gegn Arsenal og var öflugur gegn Atlético Madríd, en annars ekki alveg tekist að finna taktinn.

Hann hefur fengið gagnrýni fyrir frammistöðuna en Völler, sem starfar í dag sem stjórandi hjá þýska fótboltasambandinu, segir frammistöðuna ekki vera áhyggjuefni og að Wirtz muni fljótlega sýna hvað í honum býr.

„Hann leggur ótrúlega mikið á sig, hleypur mikið, tekur marga spretti og kemur til baka, en hann er ekki að fá þessar sendingar sem hann var vanur að fá hjá Leverkusen eða hjá landsliðinu. Það þarf að vinna í þessu næstu vikur og mánuði.“

„Ég veit að hann er ekki ein af þessum dívum sem spila þessa stöðu sem stendur bara kyrr og hengir haus eftir að hafa klúðrað þremur sendingum. Florian er ekki gerður þannig. Hann er ekki bara stórkostlegur fótboltamaður heldur líka með frábæran karakter. Hann mun alltaf gefa allt sitt frá fyrstu og fram að síðustu mínútu. Hlaupatölurnar hans eru líka ótrúlegar. Hann mun sigrast á þessu,“ sagði Völler við Sky90.
Athugasemdir
banner