„Léttir og stoltur að við getum sýnt svona spilamennsku á þessum tímapunkti. Sýndum þetta líka í síðasta leik fannst mér, karakter í liðinu. Ekkert grín að vera í KR og vera í þessari stöðu. Þú sérð stuðninginn sem við erum að fá. Hvernig við dílum við þessa brekku, annað hvort brotna menn eða verða sterkir í þessari stöðu og mér fannst við sýna mikinn karakter. Við getum tekið þetta með okkur inn í næsta tímabil," sagði Aron Sigurðarson, fyrirliði KR, við Fótbolta.net eftir sigur gegn Vestra í úrslitaleik um hvort liðið yrði áfram í deildinni. KR vann öruggan sigur á Ísafirði.
Lestu um leikinn: Vestri 1 - 5 KR
„Við vorum með nýtt lið og við erum búnir að fá högg og mótmæli sem í heildina væri hægt að dreifa á fimm tímabil. Það voru meiðsli, við skíttöpuðum á móti liðum og stigum aftur upp. Ég fagna allri umræðu, við fengum hana alla í andlitið og björguðum okkur svo svona. Að hafa hagað okkur svona, bjargað okkur svona, það gefur mjög góð fyrirheit fyrir framhaldið."
„Auðvitað vorum við stressaðir, drullustressaðir. Ég sagði fyrir einhverjum tíma síðan að maður var skíthræddur um að falla með KR. En að ná að spila svona, haga sér svona, að sýna ekki að þetta hefði áhrif á okkur, ná að spila með tóman haus og spila svona vel upp á líf á dauða gerir mig ógeðslega stoltan. Ég er stoltur af liðinu og teyminu í kring: hvernig Óskar og teymið tækluðu þessa lokamánuði var til fyrirmyndar - og hópurinn líka."
Aron lét stór orð falla í sumar að það væri mjög bjart framundan, sagði að KR væri að fara taka yfir. Hann ætlar að vera áfram og upplifa þá björtu tíma.
„Auðvitað. Það sjá allir sem sjá að við erum að fara taka yfir. Við vorum í fallbaráttu þegar ég sagði þetta og menn hlógu þá. En þið getið skoðað það sem þið viljið, kafað í öll gögn sem þið viljið, það er ekki margt sem þarf að laga. Við höfum tíma í það núna og ég stend þétt við það sem ég sagði fyrr í sumar," sagði fyrirliðinn sem átti mjög gott tímabil og var á bekknum í liði ársins hér á Fótbolti.net.
Athugasemdir
























