Ívar Orri Kristjánsson dæmdi stórleik Breiðabliks og Víkings í Bestu deild karla í síðustu viku þar sem allt sauð upp úr í lokin.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, fór í viðtöl eftir leikinn þar sem hann var mjög harðorður í garð Ívars og dómarateymisins.
Hann var aðallega ósáttur við það að uppbótartíminn hefði verið lengri en gefið var upp, jafnvel þó svo að hann hefði bara farið 40 sekúndur fram yfir og það var annað mark skorað fyrr í uppbótartímanum. Arnar var líka ósáttur við það hversu lítið Víkingarnir komust upp með.
Arnar sagði að Ívar hefði verið alveg ömurlegur og bætti við: „Ég er búinn að standa með þessum dómurum í ansi mörg ár en núna hef ég virkilegar áhyggjur... Maður reynir að tala við þessa gaura en þeir eru jafn heilagir og páfinn. Þeir þykjast svo ekkert vita og benda bara á hvorn annan."
Ívar Orri var í viðtali hjá Bjarna Helgasyni á Morgunblaðinu sem birtist í dag þar sem hann ræddi meðal annars um það sem átti sér stað í leiknum síðasta föstudag. „Manni kannski líður ekkert brjálæðislega vel þegar svona kemur upp í leikjunum sem maður er að dæma," sagði Ívar Orri en það voru gríðarleg læti eftir leikinn og stympingar á milli liðanna.
„Ég fór daginn eftir á fimleikamót hjá dóttur minni og var að grilla pylsur ofan í mannskapinn. Það komu ótrúlega margir til mín á þessum degi og spurðu mig hvernig ég hefði það. Fólk hafði áhyggjur af því að ég væri langt niðri eftir þetta, en það var alls ekki málið. Ef við tölum bara um reiðina sem sneri að mér persónulega, þá taldi ég mig vera í fullum rétti á því sem þar gekk á."
„Ég tók það ekkert brjálæðislega inn á mig, en það er leiðinlegt að vera aðalumræðuefnið á kaffistofunum og í fjölmiðlum. Það er ekki það sem manni langar í þessu starfi. Maður sér oft blaðamenn tala um að það hafi farið lítið fyrir dómaranum og þannig eigi það að vera. Stundum er það bara ekki hægt, stundum eru leikir þannig að þú þarft að taka erfiðar ákvarðanir og halda hlutunum í skefjum. Þá er ekki hægt að láta sig hverfa. Stundum eru leikir bara þannig."
Einhverjir sem töluðu um þetta sem viðtal ársins
Ívar var þá spurður út í viðtalið sem Arnar fór í eftir leikinn. Hann er á því að það megi gagnrýna og hafa skoðanir, en þarna var reiðin ansi mikil.
„Það voru einhverjir sem töluðu um að þetta væri viðtal ársins. Umræðuefnið í viðtali ársins er þá 70 prósent um mig sem persónu. Það er ekki eitthvað sem ég vil. Þetta er ekki eitthvað sem við myndum kjósa að væri að gerast viku inn og viku út, að það sé svona mikil reiði út í okkar störf."
„Menn geta alveg haft skoðanir á dómgæslunni, og sagt að við séum lélegir og höfum tekið ákvarðanir sem hafi haft áhrif. Allt í góðu. Við erum örugglega fyrstu mennirnir til að gera okkur grein fyrir því... en oft finnst mér við samt einblína of mikið á ákvarðanir dómara í leikjum."
Ívar kom inn á mál Anthony Taylor frá því á dögunum og benti á að ábyrgð Jose Mourinho, stjóra Roma, væri mikil í því máli. „Það er ofboðslega mikil ábyrgð sem liggur á þeim sem stíga í viðtal. Maður vill ekki að þeir leiði stuðningsmenn sína í þessa hegðun."
Ívar segist annars bera ofboðslega lítinn kala til Arnars og það sé í höndum einhverra annarra hvað eigi að gera í framhaldinu. Hann segir það ekki rétt hjá Arnari að hann hafi horfi ekkert á enska boltann, hann fylgist vel með honum og er stuðningsmaður Manchester United.
Höfum fengið töluvert lakari dómgæslu í sumar
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, tjáði sig um dómgæsluna í leiknum í útvarpsþættinum Fótbolta.net um síðustu helgi. Hann sagðist hafa fengið töluvert lakari dómgæslu í sumar en í þessum umtalaða leik.
„Mér fannst hún ekki jafn léleg og Arnari. Við höfum fengið töluvert lakari dómgæslu í sumar. Mér fannst þeir komast upp með aðeins of mikið," sagði Óskar um Víkingana.
„Öll umræða pólaríserast af því hvaða gleraugu þú ert með... þú sérð það sem hentar þér hverju sinni, í raun og veru. Mér fannst Halldór Smári komast upp með mjög ruddalegar tæklingar. Þetta eru tæklingar sem ég hefði tekið fyrir 25 árum en hún er í dag tæp. Halldór Smári er annað hvort heimsyfirráð eða dauði, annað hvort sturluð tækling eða rautt spjald. Mér fannst hann vera tæpur í fyrri hálfleik."
„Mér fannst eins og hann hefði getað bætt við meira í uppbótartíma því Víkingar töfðu mjög mikið. Ef þú horfir á þetta hinum megin þá var alltof miklu bætt við uppbótartímann," sagði Óskar. „Þetta er mesta áskorun sem dómarar á Íslandi fá í dag, að dæma þessa leiki þar sem allt er á heljarþröm frá fyrstu mínútu. Ég hef séð þessa leiki töluvert verr dæmda en Ívar gerði. Svo eru þetta bara tilfinningar og hversu langt þú leyfir tilfinningunum að stjórna þér."
Tómas Þór Þórðarson, sem er stuðningsmaður Víkings, talaði einnig um dómgæsluna í þættinum. „Mér fannst ekkert að þessari dómgæslu og ekkert að þessum tæklingum. Halli kannski aðeins of seinn í eina, en áfram gakk. Þetta er rautt spjald á Damir, það eru stóru mistökin. Það var ekkert að hvorugum uppbótartímanum. Af mörgu sem Arnar Gunnlaugs hefur sagt, þá fannst mér hann fara helvíti hart í Ívar Orra. Ég verð að viðurkenna það."
Pétur Guðmundsson mætti á skrifstofu Fótbolta.net á dögunum og ræddi um dómgæslu en hægt er að hlusta á það hlaðvarp í spilaranum hér fyrir neðan. Eins er hægt að hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Sjá einnig:
Reynslumikill dómari segir að KSÍ hafi gengisfellt herferð sína
Athugasemdir