Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 08. september 2021 21:17
Brynjar Ingi Erluson
Hannes Þór leggur landsliðshanskana á hilluna
Icelandair
Hannes Þór Halldórsson
Hannes Þór Halldórsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson er hættur að spila með íslenska karlalandsliðinu en hann staðfesti þetta í viðtali við Eddu Sif Pálsdóttur í viðtali við RÚV nú rétt í þessu.

Hannes, sem er 37 ára gamall, spilaði sinn fyrsta landsleik gegn Kýpur í undankeppni EM árið 2011.

Hann fór með liðinu á EM og HM en hefur ákveðið að kalla þetta gott í 77. landsleik sínum.

Það er alveg óhætt að segja að Hannes sé besti markvörðurinn í sögu íslenska landsliðsins en nú er landsliðshanskarnir komnir á hilluna.

„Ég er búinn að spila í tíu ár upp á dag og mjög stoltur af því og búinn að eiga ótrúlegar stundir í þessari landsliðsstreyju. Margar af mínum bestu minningum en það er komið að kynslóðaskiptum."

„Við eigum fullt af frábærum markmönnum svo mér finnst rétti tímapunkturinn fyrir mig að stíga til hliðar og leyfa þeim að taka við keflinu án þess að ég sé andandi ofan í hálsmálið á þeim. Ég var að spila minn síðasta landsleik í kvöld og ég þakka þærlega fyrir mig,"
sagði hann við RÚV.

„Þetta er búið að vera að gerjast í smá tíma. Ég er mjög sáttur með allt sem við höfum gert og með þennan feril. Ég er sáttur í eigin skinni, það er ekkert eftir. Ég hélt þetta væri komið eftir England en svo ákváðum við að taka slaginn í þessari keppni en mér líður þannig að þetta sé komið gott og ég verð að elta þá tilfinningu og mér finnst það rétt í stöðunni."

Hannes var ekki búinn að tjá landsliðsþjálfurunum um ákvörðun sína þegar hann ræddi við Eddu.

„Nei, reyndar ekki. Ég á eftir að fara og pikka í Adda."

Hann á sér mörg uppáhalds augnablik en hann segir að sumarleikirnir á Laugardalsvelli hafi staðið upp úr.

„Það er af mörgu að taka. Ég myndi segja að þó það hafi verið nokkur augljós augnablik af stórmótunum sem er ótrúlegasta lífsreynsla sem ég hef upplifað þá myndi ég segja að það hafi verið þessar stundir á Laugardalsvellinum. Nú er ég alveg að fara að grenja, ætlaði ekki að fara að grenja. Þessir sumarleikir þegar við vorum að vinna Tékka og Króatíu, það var eitthvað sérstakt við þær stundir. Ég var mjög ánægður með þá tímasetningu að geta kvatt hérna á Laugardalsvellinum."

Hannes segir að hann hafi hugsað þetta lengi og þetta sé rétti tíminn til að kveðja landsliðið, á Laugardalsvelli.

„Þetta eru ekki kjöraðstæður kannski en mér finnst tíminn vera kominn og ég get engu breytt um það. Mér finnst óþarfi að vera að teygja þetta lengra ef að tilfinningin er þessi. Ég er löngu búinn að upplifa miklu meira en ég hefði nokkurn tímann þorað að láta mig dreyma um í landsliðstreyjunni. Þannig ég er mjög ánægður," sagði Hannes í síðasta viðtali sínu sem markvörður landsliðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner