Liverpool hefur áhuga á Van de Ven - Palmer til í að spila fyrir Man Utd - Real Madrid og Man Utd sýna Neves áhuga
   fim 22. janúar 2026 11:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
ÍA bauð í Hlyn - „Fannst réttast fyrir mína þróun að vera áfram hjá Þrótti"
Framlengdi við uppeldisfélagið.
Framlengdi við uppeldisfélagið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttarar voru mjög ánægðir um liðna helgi þegar nýr samningur við Hlyn Þórhallsson var í höfn. Hlynur er uppalinn Þróttari, fæddur 2005 og hefur verið í lykilhlutverki síðustu tvö tímabil í Lengjudeildinni.

Fyrri samningur hefði runnið út eftir tímabilið 2026. ÍA hafði áhuga á því að fá Hlyn í sínar raðir og bauð í hann. Fótbolti.net ræddi við Hlyn um ákvörðunina að framlengja í Laugardal.

„Ég komst að þeirri niðurstöðu að fyrir mína þróun sem leikmaður væri best að vera áfram í Þrótti. Þróttur er mitt félag og við mér finnst við eiga óklárað verkefni fyrir höndum, svo þetta er rétt ákvörðun fyrir mig," segir Hlynur.

Fótbolti.net fjallaði um áhuga ÍA á Hlyni fyrr í mánuðinum. Skagamenn reyndu að fá Hlyn í sínar raðir.

„Þetta er auðvitað mikil viðurkenning á frammistöðu mína í fyrra að klúbbur eins og ÍA hafi áhuga. Það voru einhverjar viðræður í gangi á milli félaganna. Að lokum fannst mér réttast fyrir mig og mína þróun að vera áfram hjá Þrótti."

Hvernig líst þér á stöðuna á Þrótti og þitt hlutverk?

„Mér líst mjög vel á stöðuna á Þrótti og ég er gríðarlega spenntur fyrir tímabilinu. Við erum með mjög sterkan hóp og höfum bætt við okkur góðum leikmönnum sem styrkja liðið enn frekar. Stemningin innan hópsins er frábær. Mér líður gríðarlega vel undir stjórn Venna (Sigurvins Ólafssonar, þjálfara), hann hefur veitt mér mikið traust síðan hann tók við liðinu. Ég er ánægður með mitt hlutverk og hlakka mikið til að leggja mitt af mörkum til að ná okkar markmiðum í sumar."

Þróttur hefur unnið KR og Val sannfærandi í Reykjavíkurmótinu. Hvernig voru þeir leikir?

„Þetta voru í raun bara fínir leikir. Við skiluðum inn góðri frammistöðu, auðvitað vantaði einhverja leikmenn í bæði lið og þau mögulega á öðrum stað í þeirra undirbúning miðað við okkur. Þannig við dveljum ekkert við þessa leiki og horfum bara til næsta leiks."

Markmiðið að fara upp í Bestu
Hvert er markmið sumarsins?

„Markmiðið í sumar er að sjálfsögðu að fara upp og gera þar með betur en á síðasta ári. Auðvitað erum við meðvitaðir að deildin verður gríðarlega sterk í ár og þetta verður krefjandi en það eru allir tilbúnir að leggja sig allan fram til að ná okkar markmiðum," segir Hlynur.
Athugasemdir
banner
banner