Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
banner
   mið 08. nóvember 2023 12:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hareide með skýr skilaboð - „Verði ykkur að góðu!"
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað í síðasta landsliðsglugga.
Marki fagnað í síðasta landsliðsglugga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland mætir mögulega Bosníu í umspilinu.
Ísland mætir mögulega Bosníu í umspilinu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Við verðum að halda áfram að þróa liðið," sagði Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, á fréttamannafundi í dag eftir að landsliðshópur var tilkynntur fyrir síðustu tvo leikina í riðlinum fyrir undankeppni Evrópumótsins.

Ísland mætir Slóvakíu í Bratislava þann 15. nóvember næstkomandi og Portúgal í Lissabon 19. nóvember.

Það eru tvær breytingar á milli verkefna. Jóhann Berg Guðmundsson og Stefán Teitur Þórðarson koma inn í hópinn. Út úr hópnum fara Júlíus Magnússon og Andri Lucas Guðjohnsen.

„Ég er að reyna að halda stöðugleika í hópnum, reyna að breyta ekki svo miklu. Við breytum smá og fáum Stefán Teit (Þórðarson) inn. Jóhann Berg kemur líka til baka eftir meiðsli. Venjulega er hann byrjunarliðsmaður og hann er með mikla reynslu. Andri Lucas mun fara í U21 landsliðið og styrkja það lið. Við þurfum á því að halda að U21 landsliðið fari líka á stórmót," sagði Hareide.

„Það eru tvær leiðir í gegnum þetta og það er að komast beint á mótið, sem verður erfitt út af þeirri stöðu sem við erum í. Svo er það umspilið í mars. Við verðum að horfa í það og byggja upp nægilega sterkt lið fyrir þennan glugga. Þessir tveir leikir eru gríðarlega mikilvægir út frá umspilinu í mars líka."

Ísland er í fjórða sæti riðilsins með 10 stig þegar tveir leikir eru eftir. Portúgal hefur þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins og hefur unnið alla átta leiki sína til þessa. Slóvakía er í öðru sæti riðilsins með 16 stig.

Það eru ekki miklir möguleikar á því að komast áfram í gegnum riðilinn en umspil í mars er frábær möguleiki. Hareide er að horfa í það að undirbúa liðið sem best fyrir það.

„Það er pirrandi þegar að maður horfir á þessa leiki, sér í lagi heimaleikina gegn Slóvakíu og Portúgal. Að sjá stigin sem við hefðum geta náð í þar og þá værum við í frábærri stöðu. En svona er fótboltinn og við verðum að halda áfram horfa á jákvæðu hlutina í þessu," sagði Hareide.

„Við fáum ekki nægilega marga leiki saman, en ef við náum að koma á góðri tengingu milli varnar og sóknar í liðinu og skapa okkur færi í kjölfarið þá munu mörkin koma. Það eru leikmenn í liðinu sem eru að skora mörk fyrir sín félagslið. Við þurfum bara að halda áfram og halda í trúnna. Mikilvægast fyrir okkur er að þétta varnarleikinn. Sér í lagi ef við erum að fara í þessa umspilsleiki, þá þurfum við að vera gríðarlega þéttir. Því við vitum að við getum skapað færi fyrir okkur, skorað mörk. Við höfum gæðin í það. Við getum alltaf skorað mörk. Það var bara gegn Portúgal sem við náðum ekki að skora. Ef við náum að þétta liðið þá verðum við í góðri stöðu fyrir mögulega umspilsleiki í mars á næsta ári."

Hareide hefur góða trú á því að liðið geti gert frábæra hluti í umspilinu þegar að því kemur

„Eins og staðan er núna er líklegast að við myndum mæta Ísrael, Finnlandi eða Bosníu. Ég er fullviss ef við náum þessu fram þá eigum við góða möguleika á að komast á EM í gegnum umspil við mögulega Ísrael, Finnland eða Bosníu. Ég segi bara við þau lið: Verði ykkur að góðu! Við eigum frábæra möguleika."
Athugasemdir
banner
banner
banner