„Þetta er mjög spennandi verkefni. Móttökurnar hafa verið frábærar og það er greinilega mikill metnaður lagður í þetta mót," sagði Theodór Elmar Bjarnason í viðtali á YouTube síðu KSÍ eftir að íslenska landsliðið mætti til Kína.
Sex nýliðar eru í hópnum og margir leikmenn fá tækifæri til að sýna sig og sanna í fjarveru fastamanna.
„Þú færð þín tækifæri og ef þú ert ekki tilbúinn að taka þau þá áttu ekki betra skilið. Ég vona að þeir hafi haldið sér í formi í fríinu og séu komnir hingað til að sýna sig og sanna. Þeir eru hérna af þeirri ástæðu að þeir eru góðir leikmenn og ég vona að þeir séu tilbúnir að grípa það."
Elmar hefur sjálfur byrjað síðustu tvo leiki í undankeppni HM og hann vill halda áfram að sýna sig og sanna.
„Ég er búinn að halda mér við og sjá til þess að ég sé tilbúinn í þetta verkefni. Ég vil halda sæti mínu í byrjunarliðinu sem ég er búinn að vinna mér inn. Það er upp á mikið að spila fyrir mig líka og ég er spenntur," sagði Elmar.
Óskar Örn Guðbrandsson, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, tók viðtalið en það má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir