Arsenal með í kapphlaupinu um Ekitike - Mikill áhugi á McAtee - Man Utd tilbúið að selja Malacia
   mán 09. júní 2025 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ronaldo: Ekkert betra en að sigra fyrir Portúgal
Mynd: EPA
Mynd: EPA
40 ára Cristiano Ronaldo réði ekki við tilfinningarnar eftir úrslitaleik Þjóðadeildarinnar í gærkvöldi.

Ronaldo spilaði meiddur fyrstu 88 mínútur leiksins og tókst að skora mark í 2-2 jafntefli. Honum var svo skipt af velli en hvorugu liði tókst að bæta marki við leikinn í uppbótartíma eða framlengingu. Því var gripið til vítaspyrnukeppni.

Þar skoruðu Portúgalir úr öllum fimm spyrnum sínum á meðan Álvaro Morata fyrirliði Spánverja klúðraði.

„Ég hef unnið marga titla með félagsliðum en það er ekkert betra heldur en að sigra fyrir Portúgal. Þetta er þjóðin okkar, fólkið okkar. Við erum lítil þjóð en með mjög stóran metnað," sagði Ronaldo, markahæsti atvinnumaður sögunnar, að leikslokum.

„Konan mín er hérna, börnin mín, bróðir minn og vinir mínir. Þetta er sérstakt. Þessi kynslóð af landsliðsmönnum á skilið að sigra titil af þessari stærðargráðu."

Portúgal vann Þjóðadeildina síðast 2019 og Evrópumótið 2016, en fyrir tíð Ronaldo hafði þjóðin aldrei unnið stóran titil.

„Ég fann fyrir smávægilegum meiðslum í upphitun sem urðu svo verri og verri þegar leið á leikinn. Þetta eru meiðsli sem hafa truflað mig áður en ég er tilbúinn til að spila fótbrotinn fyrir Portúgal," sagði Ronaldo að lokum þegar hann var spurður út í skiptinguna á 88. mínútu.
Athugasemdir
banner