„Tilfinningin er alltaf eins þegar þú tapar sigurleik á síðustu spyrnu leiksins, þetta er alltaf sami skellurinn, ert að glata niður sigurleik, skellur og mikill pirringur sem hellist yfir mann," segir Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, við Fótbolta.net í dag.
Víkingur gerði 2-2 jafntefli við Fram á útivelli í gær þar sem jöfnunarmark Fram kom úr aukaspyrnu í blálok leiksins.
Víkingur gerði 2-2 jafntefli við Fram á útivelli í gær þar sem jöfnunarmark Fram kom úr aukaspyrnu í blálok leiksins.
Lestu um leikinn: Fram 2 - 2 Víkingur R.
Sölvi hélt áfram: „Þegar maður nær svo aðeins að ná áttum aftur, þá er ég bara hrikalega stoltur af liðinu; hvernig þeir spiluðu, hvernig þeir náðu orkustiginu upp og stjórninni á leiknum, þetta var virkilega góður leikur hjá okkur. Að koma á Framvöllinn og dóminera svona leikinn, það er mjög sterkt og vel gert hjá strákunum, en það bítur okkur í rassinn að við erum ekki að nýta færin okkar, fáum færi til að klára þessa síðustu tvo leiki (þennan leik og leikinn gegn Vllaznia síðasta fimmtudag) og loka þeim jafnvel í fyrri hálfleik. Við leyfum Fram að hanga inn í leiknum og okkur er svo refsað heldur betur illa fyrir það."
Það gerðist mikið undir lok leiks, Víkingur fékk gott færi öðru megin, Fram fer upp, fær aukaspyrnu og Kennie Chopart skorar úr henni. Hvernig sér Sölvi þetta?
„Það er hægt að hugsa eftir á hvort við hefðum átt að fara með boltann út í horn, halda boltanum og reyna drepa leikinn. En ef opnanir gefast, við komumst í mjög gott færi þarna, mark hefði endanlega drepið leikinn."
„Mér leið alveg ágætlega á þessum mínútum, fannst við vera sterkir og fókuseraðir, þeir voru ekkert að fá færi eða ná að herja á markið okkar á lokamínútunum. Síðan getur allt gerst, tilviljunarkennt.... einhver langur bolti eins og raun bar vitni í þessu marki. Síðan má deila um hvort þetta var aukaspyrna eða ekki á þetta. En Helga Mikael hefur ekki fundist erfitt að dæma gegn okkur á svona mínútum. Það kom mér því ekkert á óvart að hann myndi dæma aukaspyrnuna."
„Síðan fer boltinn í gegnum vegginn, þetta er bara svona... þetta eru smáatriði, örlítið sem ræður því að við erum núna í 2. sæti, tveimur stigum á eftir Val, frekar en í betri stöðu, það er rosalega mjótt á milli. Svona verður þetta allt tímabilið. Við verðum að vera með fulla einbeitingu í 90 mínútur, allan tímann, í öllum leikjum. Síðan þarftu að hafa heppnina með þér líka inn í þessu. Heppnin hefur ekki beint verið með okkur í síðustu leikjum. En það er nóg eftir af þessu móti og hellingur eftir að gerast. Við voru svekktir í gær, vorum sárir, en það er hellingur eftir. Þetta er búið og gert og við getum tekið margt gott út úr frammistöðunni, lært af hlutum, bætt okkur og horft fram á veginn."
Alls ekki aukaspyrna
Hver er skoðun á aukaspyrnudómnum. Oliver Ekroth er dæmdur brotlegur gegn Sigurjóni Rúnarssyni fyrir utan teig Víkings. Helgi Mikael Jónasson dæmdi leikinn.
„Mér finnst þetta alls ekki vera aukaspyrna, hann kemur og reynir að hoppa yfir Oliver, þetta er bara klafs. Ég held að ég hafi aldrei sett út á dómarann í minni þjálfaratíð, er ekki mikið að því, en Helgi Mikael á sögu gegn okkur Víkingum, þannig það kom mér alls ekki á óvart að hann hafi flautað í þessa átt, það virðist vera þannig þegar hann dæmir leikina okkar."
Nefnir leikinn gegn KR en vildi ekki fara dýpra
Hvaða sögu er Sölvi að vísa í, hvaða stóru atriði koma upp í hugann?
„Ég nenni ekki að fara telja þau öll upp, mér finnst það kjánalegt. En það er t.d. KR leikurinn (2020). Síðan eru aðrir leikir, önnur atriði, ég ætla ekki að fara á það plan að fara rifja þau upp aftur," segir Sölvi.
KR leikurinn 2020 er með eftirminnilegri leikjum síðustu ára. KR vann 2-0 í Vesturbænum og þeir Sölvi, Kári Árnason og Halldór Smári Sigurðsson, þá leikmenn Víkings, fengu allir rautt spjald í leknum. Frá og með tímabilinu 2020 hefur Helgi Mikael dæmt, samkvæmt Transfermarkt, sautján keppnisleiki hjá Víkingi. Tíu þeirra hafa unnist, sex sinnum orðið jafntefli og eini tapleikurinn var leikurinn í Vesturbænum. Víkingur hefur fengið tvö víti í leikjunum og andstæðingurinn eitt. Rauðu spjöldin á Víking eru í heildina fimm, fjórða spjaldið fékk Gylfi Þór Sigurðsson í heimaleiknum gegn ÍBV í byrjun móts og fimmta fékk aðstoðarmaður Sölva, Aron Baldvin Þórðarson, eftir að leik lauk í gær.
07.04.2025 22:00
Sölvi: Helgi Mikael hikar ekkert við að rífa upp rauða gegn Víkingum
Ósáttur við leikmann sinn í veggnum
Eruð þið búnir að skoða skotið hjá Kennie, ertu ósáttur við Pálma í markinu eða vegginn?
„Það er náttúrulega ekki Pálma að kenna ef mennirnir í veggnum opna sig. Við höfum svo sem ekkert farið yfir það hvernig menn eiga að standa nákvæmlega í veggnum, en það er eitthvað sem við getum lært af núna, við snúum okkur ekki; opnum ekki vegginn þegar það er verið að skjóta, það er mjög klaufalegt að gera það. Þetta er eitthvað sem við eigum ekki að þurfa að segja, þú bara tekur skotið á þig, hvort sem það er í andlitið eða hvað sem er, stoppar skotið; ert ekki að snúa þér á hlið til þess að þetta verði minna vont eða eitthvað."
„Þetta er bara hlutur sem við þurfum að læra af. Það er rosalega erfitt að sjá þetta fyrir sér, ég fór ekki yfir þetta á taktískri æfingu daginn fyrir leik. En vissulega svekkjandi."
„Þetta eru stór stig. Eins með Valsleikinn úti, þar létum við nappa okkur við að vera kvarta í dómaranum þegar Valsmenn taka snögga aukaspyrnu, litlir hlutir sem við þurfum að lagfæra. Þú þarft að vera með einbeitingu í 90 mínútur plús," segir Sölvi.
Athugasemdir