Tveir miðverðir orðaðir við Liverpool - Graham Potter næsti landsliðsþjálfari Englands? - Arsenal líklegast til að fá Merino - Man City vill fá...
   þri 09. júlí 2024 20:55
Brynjar Ingi Erluson
EM: Spánverjar í úrslit eftir sigur á Frökkum
Lamine Yamal: Leggið nafnið á minnið!
Lamine Yamal: Leggið nafnið á minnið!
Mynd: EPA
Yamal stýrir boltanum efst upp í vinstra hornið
Yamal stýrir boltanum efst upp í vinstra hornið
Mynd: EPA
Kylian Mbappe og félagar eru úr leik
Kylian Mbappe og félagar eru úr leik
Mynd: EPA
Spánn 2 - 1 Frakkland
0-1 Randal Kolo Muani ('9 )
1-1 Lamine Yamal ('21 )
2-1 Dani Olmo ('25 )

Spænska karlalandsliðið er komið í úrslitaleik Evrópumótsins í Þýskalandi eftir að hafa unnið frækinn 2-1 sigur á Frakklandi í München í kvöld.

Leikurinn var hin mesta skemmtun, sem hefur alls ekki verið raunin í leikjum Frakka á mótinu. Spánverjar hafa aftur á móti verið frábærir og leikir þeirra með þeim skemmtilegustu til þessa.

Frakkarnir byrjuðu leikinn vel. Mark þeirra kom á 9. mínútu. Kylian Mbappe fékk boltann vinstra megin við teiginn, kom með þessa frábæru og hárnákvæmu fyrirgjöf á hausinn á Randal Kolo Muani sem stangaði boltanum í netið.

Stuttu áður hafði Fabian Ruiz fengið dauðafæri eftir fyrirgjöf Lamine Yamal en hann setti boltann yfir markið.

Spánverjarnir svöruðu marki Frakka vel. Á 21. mínútu skoraði Lamine Yamal stórbrotið mark, hans fyrsta á mótinu og varð um leið yngsti markaskorari í sögu Evrópumótsins.

Yamal fékk boltann fyrir utan teiginn, tók nokkrar gabbhreyfingar áður en hann setti boltann á vinstri fótinn og skaut honum efst upp í vinstra hornið, í stöng og inn. Glæsilegt jöfnunarmark.

Fjórum mínútum síðar gerðu Spánverjar sigurmark sitt. Dani Olmo fékk boltann í teignum, fór illa með Aurelien Tchouameni áður en hann skaut honum í vinstra hornið. Boltinn fór af Jules Kounde og í netið, en markið skráð á Olmo þar sem boltinn var alltaf á leið inn.

Dayot Upamecano og Ousmane Dembele komu sér í góða stöðu til að jafna í síðari hálfleiknum. Dembele átti skot sem Unai Simon varði og þá skallaði Upamecano rétt framhjá eftir hornspyrnu.

Yamal var ekki langt frá því að gera annað mark sitt þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Aftur var hann fyrir utan teiginn og reyndi vinstri fótar skot en boltinn rétt yfir markið í þetta sinn.

Frakkar voru ekki nógu ákveðnir í sínum aðgerðum og virkaði ekki eins og þeir væru líklegir til að jafna. Spánverjar héldu þetta út og komu sér í úrslit í fyrsta sinn síðan 2012.

Sanngjörn niðurstaða. Spánverjar verið langbesta lið mótsins og erfitt að sjá einhverja aðra þjóð vinna mótið í ár.

Spánn mætir Englandi eða Hollandi í úrslitum, en úrslitaleikurinn fer fram sunnudagin 14. júlí á Ólympíuleikvanginum í Berlín.
Athugasemdir
banner
banner