
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir eru stjörnurnar í sóknarleik Íslands, en þær hafa ekki fundið sig alveg nægilega vel á Evrópumótinu í Sviss.
Ísland er úr leik á EM eftir töp gegn Finnlandi og Sviss, en á morgun er það lokaleikurinn á mótinu gegn Noregi.
Ísland er úr leik á EM eftir töp gegn Finnlandi og Sviss, en á morgun er það lokaleikurinn á mótinu gegn Noregi.
Segja má að Karólína og Sveindís hafi slegið í gegn á EM í Englandi fyrir þremur árum þar sem þær stimpluðu sig vel inn með liðinu. En sóknarleikur Íslands á mótinu núna í Sviss hefur ekki verið nægilega góður og okkar bestu leikmenn hafa ekki fundið taktinn.
„Maður vildi fá meira frá þeim á þessu móti," sagði undirritaður í EMvarpinu í gær. „Þær verða leikmenn í heimsklassa ef þær eru ekki komnar þangað, en þetta var ekki alveg þeirra mót."
„Nei, klárlega ekki. Það er vissulega leikur eftir til að gera þetta aðeins betra en þessi leikur á fimmtudaginn verður óeftirminnilegur á allan hátt þó svo að við vinnum hann 4-0," sagði Einar Örn Jónsson, fréttamaður á RÚV, í þættinum og hélt áfram:
„En eins og með Sveindísi, hennar bestu hlaup koma þegar hún fær að elta boltann inn fyrir. Þegar hún er að fá boltann út á vinstri kantinum rétt fyrir innan miðju á vallarhelmingi andstæðingana með bakið í markið, bakvörðinn hjá hinum alveg ofan í sér og einn miðjumaður að loka líka - það er ekki staðan fyrir Sveindísi. Hún þarf að fá sendingarnar inn fyrir eða að geta fengið boltann ein og hlaupið á vörnina sem er að bakka."
„Sveindís komst einu sinni inn á teiginn gegn Sviss og skildi hafsentinn eftir með ökklana í grasinu en það var vel gert hjá bakverðinum að rétt ná að pikka í boltann áður en Sveindís náði í hann. Það er staðan sem við þurfum að koma henni í, ekki að vera með boltann í fótunum og snúa baki í markið við miðlínu," sagði Einar.
Þetta er liðsíþrótt
Einar segir að ekki sé bara hægt að benda á Sveindísi og Karólínu í sóknarleiknum.
„Þetta er eitthvað sem liðið þarf að gera. Þú getur ekki bara sagt að þú sért með frábæran leikmann, láta hana bara um þetta, dúndra í áttina til hennar og vona það besta. Þú þarft að koma liðinu sem er í kringum hana í stöðu sem er hættulegust fyrir Sveindísi. Sama með Karólínu, ef hún er að fá boltann á miðjuhringnum með bakið í markið hinum megin þá er hún ekki að fara að snúa þrjár af sér, snúa í átt að marki, bruna og finna einhverja gullsendingu þannig. Hún þarf að fá að finna sér svæði og fá boltann í þau svæði. Þá getur hún töfrað eitthvað. Liðið þarf allt að smella svo þessir stjörnuleikmenn sem eru markahættulegastar fái boltann í stöðum sem eru bestar fyrir þær. Það hefur okkur algjörlega ekki tekist að gera á þessu móti," sagði Einar.
„Við getum sagt að Sveindís og Karólína hafi ekki náð sér á strik því þær hafa ekki skorað og lagt upp, en það er ekki bara hægt að benda á þær og segja 'þið eigið að gera þetta'... Þetta er eins og að vera með góðan línumann í handbolta sem er langbestur í liðinu og þú dúndrar bara boltanum alltaf upp í grennd við hann. Þetta virkar ekki þannig, þetta er liðsíþrótt og það verður að koma upp úr liðshreyfingum til að koma öllum í bestu stöðuna svo þessir leikmenn nái að skína."
„Það hefur engan veginn tekist því þetta er oft bara þannig að miðvörður fær boltann frá markmanni og dúndrar fram. Hvað á Sveindís þá að gera? Við gætum verið með Thierry Henry á kantinum og hann myndi samt ekki gera mikið úr þessu," sagði Einar og bætti við: „Það síðasta sem maður vill er að Karólína og Sveindís séu endalaust með Cecilíu fyrir augunum þegar þær fá boltann."
Á mótinu hefur ekki verið nægilega mikið flæði í spilinu til að koma þessum leikmönnum í betri og hættulegri stöður.
„En svo fer þetta kannski að vera spurning um sjálfstraust þegar þetta er ekki að ganga upp, þegar þær eru ekki að ná þessu spili og flæði," sagði Edda Sif Pálsdóttir og tók Einar undir það.
„Þetta er alltaf einhver mixtúra af þessu öllu saman. Þeim er ekki komið í sínar bestu stöður, þær detta ekki í takt og ná ekki fram sínu besta. Þetta er aldrei eitthvað eitt."
Ísland spilar lokaleik sinn á Evrópumótinu annað kvöld gegn Noregi. Það er spurning hvort við náum að koma Karólínu og Sveindísi í betri stöður í þeim leik svo þær nái að blómstra.
Athugasemdir