Noregur vann Austurríki í Þjóðadeildinni í kvöld en það voru ekki góðar fréttir fyrir Arsenal þar sem Martin Ödegaard þurfti að fara af velli vegna meiðsla.
Ödegaard var á sínum stað í byrjunarliðinu en hann þurfti að fara af velli vegna meiðsla á ökkla þegar rúmar 20 mínútur voru til leiksloka.
Læknateymi Arsenal hefur sett sig í samband við norska teymið en Arsenal spilar stórleik um helgina gegn Tottenham á útivelli.
Það yrði mikið högg fyrir Arsenal ef um alvarleg meðsli er að ræða en liðið verður án Declan Rice um helgina þar sem hann tekur út leikbann.
„Meiðslin litu illa út í klefanum. Hann er smávægilega tognaður á ökkla. Við sjáum til, kannski notum við ómskoðun en ef við erum ekki viss þá munum við taka segulómun á morgun," sagði læknir norska landsliðsins.