„Mjög svekkjandi úrslit og ekki það sem við vonuðumst eftir sérstaklega eftir að hafa komið til baka í lok fyrri," sagði Orri Steinn Óskarsson, framherji íslenska landsliðsins, eftir tap gegn Tyrklandi ytra í kvöld.
Lestu um leikinn: Tyrkland 3 - 1 Ísland
„Þeir eru með kraftmikla stuðningsmenn og við vissum af því. Það var engin afsökun, við vorum undirbúnir fyrir það. Það var smá krefjandi en það var ekkert að koma í veg fyrir að við spilum okkar fótbolta," sagði Orri Steinn en hann spilaði oft í Tyrklandi með FCK.
„Ég spilaði í fyrra á móti Galatasaray og það var örugglega svona 20 sinnum verra. Þessi tyrknesku lið sem maður hefur spilað gegn í gegnum tíðina eru mjög hávær. Þetta er partur af leiknum, þegar þú kemur hingað til Tyrklands þá er þetta alltaf svona," sagði Orri Steinn.
Orri Steinn byrjaði á bekknum í kvöld eftir að hafa verið í byrjunarliðinu og skorað gegn Svartfjallalandi í síðasta leik og var svekktur með það.
„Að sjálfsögðu, ég vil byrja alla leiki. Ég held að allir vita það, ég vil byrja alla leiki, ég er mjög metnaðarfullur um þá leið sem ég vil spila og auðvitað er það svekkjandi. Hann valdi Andra í dag og það er bara fínt fyrir liðið," sagði Orri Steinn.
Orri Steinn var svekktur að ná ekki að nýta meðbyrinn sem var með liðinu eftir að hann kom inn á sem varamaður en liðið hefur harma að hefna þegar Tyrkland mætir á Laugardalsvöll í október.
„Tveir heimaleikir, við verðum auðvitað að nýta það vel og sýna hvað Laugardalsvöllur er sterkur eins og við gerðum í síðasta leik," sagði Orri Steinn.