þri 10. janúar 2023 22:06
Brynjar Ingi Erluson
Enski deildabikarinn: Ekkert fær stöðvað Rashford - Newcastle nýtti færin í seinni hálfleik
Marcus Rashford skoraði tvö eftir að hafa komið inná sem varamaður
Marcus Rashford skoraði tvö eftir að hafa komið inná sem varamaður
Mynd: EPA
Antony skoraði fyrsta mark United
Antony skoraði fyrsta mark United
Mynd: EPA
Dan Burn hjálpaði Newcastle að komast áfram
Dan Burn hjálpaði Newcastle að komast áfram
Mynd: Getty Images
Manchester United og Newcastle United eru komin í undanúrslit enska deildabikarsins.

Man Utd lagði Charlton Athletic, 3-0, á Old Trafford. Heimamenn voru betri aðilinn og ekki verður um það deilt en sigurinn var gríðarlega ósannfærandi eða alveg fram að innkomu þeirra Casemiro, Marcus Rashford, Christian Eriksen og Facundo Pellistri.

Antony skoraði fyrsta mark leiksins á 21. mínútu. Fred lagði boltann á landa sinn, sem átti stórkostlegt skot með vinstri fæti í vinstra hornið, en það var keimlíkt því sem hann skoraði á móti Manchester City í deildinni á tímabilinu.

Fred var nálægt því að bæta við öðru tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks en aukaspyrna hans hafnaði í stöng.

Antony var í ágætis stuði og átti aðra tilraun af löngu færi í byrjun síðari hálfleiks en að þessu sinni fór boltinn framhjá. United var 72 prósent með boltann og ekki mikil hætta í vörn liðsins en það vantaði meiri skerpu fram á við.

Það færðist aðeins meira stuð í leikinn undir lokin. Úrúgvæski sóknarmaðurinn Facundo Pellistri tók sér ekki langan tíma í að hafa áhrif í fyrsta leik sínum. Hann lagði boltann inn fyrir á Marcus Rashford sem skoraði 14. mark sitt á tímabilinu.

Stuttu síðar gerði Rashford annað mark sitt í leiknum og núna eftir laglega sendingu frá Casemiro. Lokatölur 3-0.

Newcastle vann góðan 2-0 sigur á Leicester og ekki annað hægt að segja en að það hafi verið verðskuldað.

Heimamenn óðu í færum í fyrri hálfleiknum og átti Sean Longstaff hálfleik sem hann væri helst til í að gleyma. Með öllu réttu hefði hann átt að skora þrennu en hann klúðraði öllum dauðafærum sínum.

Joelinton átti skot í byrjun síðari hálfleiks sem hafnaði í stöng og áfram hélt Newcastle að sækja. Það var því mikill léttir er Dan Burn kom Newcastle í forystu þegar hálftími var eftir.

Annað mark Newcastle gerði Joelinton tuttugu mínútum fyrir leikslok eftir sendingu frá Miguel Almiron.

Jamie Vardy fékk frábært tækifæri til að koma Leicester inn í leikinn þegar fimmtán mínútur voru eftir en það brást bogalistin og lokatölur því 2-0 Newcastle í vil.

Úrslit og markaskorarar:

Manchester Utd 3 - 0 Charlton Athletic
1-0 Antony ('21 )
2-0 Marcus Rashford ('90 )
3-0 Marcus Rashford ('90 )

Newcastle 2 - 0 Leicester City
1-0 Dan Burn ('60 )
2-0 Joelinton ('72 )
Athugasemdir
banner
banner
banner