sun 10. október 2021 13:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hópurinn er ekki breiður - „Andri Lucas gæti byrjað"
Icelandair
Andri Lucas Guðjohnsen.
Andri Lucas Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hópurinn hjá Íslandi fyrir leikinn gegn Liechtenstein er orðinn frekar þunnur. Ari Freyr Skúlason, Birkir Már Sævarsson og Ísak Bergmann Jóhannesson eru í banni, og þá dró Guðlaugur Victor Pálsson sig úr hópnum fyrir leikinn.

Andri Lucas Guðjohnsen og Andri Fannar Baldursson misstu af leiknum gegn Armeníu vegna meiðsla, en líklegt er að þeir verði klárir fyrir leikinn á morgun.

„Andri og Andri voru með í dag. Það lítur mjög vel út með þá," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi.

Brynjar Ingi Bjarnason fór meiddur af velli gegn Armeníu.

„Brynjar var líka með í dag. Hann var í smá 'testi' undir lok æfingarinnar. Ég veit ekki alveg hvernig það fór. Ég á eftir að fá upplýsingar um það frá læknateyminu."

„Það er eitt spurningamerki í viðbót. Mikael Neville Anderson er smá tæpur eftir síðasta leik. Annars eru allir heilir."

Mun Andri Lucas byrja?
Andri Lucas er 19 ára gamall leikmaður Real Madrid á Spáni. Hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í síðasta landsleikjaglugga og var mjög öflugur. Kemur hann til greina í byrjunarliðið á morgun?

„Andri Lucas gæti byrjað á morgun. En við erum að reyna að taka réttu skrefin á réttum tíma með þessa yngstu leikmenn. Það er voðalega auðvelt að henda þeim út í djúpu laugina. Við þurfum að reyna að taka réttu skrefin fyrir þá. Það er samt möguleiki að hann muni byrja á morgun," sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner