Ryan Mason verður áfram í þjálfarateymi Tottenham þrátt fyrir að hafa farið í viðræður við Anderlecht í Belgíu.
Viðræður hafa staðið yfir síðustu daga en Anderlecht og Mason komust svo að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki rétti tíminn til að vinna saman.
Daninn Brian Riemer var látinn fara frá Anderlecht fyrir tveimur vikum síðan.
Mason er 33 ára og er fyrrum leikmaður Tottenham. Hann hefur stýrt Tottenham tvívegis til bráðabirgðar. Fyrra skiptið var þegar Jose Mourinho var látinn fara skömmu fyrir úrslitaleik deildabikarsins 2021. Þegar Mason tók við var hann yngsti stjóri í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Miðjumaðurinn fyrrverandi lagði skóna á hilluna árið 2018 eftir tvö tímabil með Hull. Hann lék árið 2015 einn landsleik fyrir England.
Athugasemdir