Arnar Hallsson leikgreinir leik Breiðabliks og FH
Arnar Hallsson, fyrrum þjálfari Aftureldingar, mun í sumar leikgreina leiki í Pepsi Max-deildinni fyrir Fótbolta.net. Hér er skýrsla hans um leik Breiðabliks og FH sem endaði 3-3 og fór fram síðasta miðvikudag. Skýrslan er gerð með hjálp Wyscout sem hjálpar liðum í Pepsi Max og Lengjudeildinni við leikgreiingar.
SJá einnig:
Leikurinn - Tuttugu og fimm mínútna taktísk veisla í farangrinum (KR - Víkingur)
Leikurinn - Óreyndir og óheppnir Gróttumenn og hverjir eru styrkleikar Fylkis?
Leikurinn - Ólíkar leikáætlanir (FH-ÍA)
Leikurinn - Arnþór svipti Patrick plássi og tíma (Valur-KR)
Breiðablik spilaði afbrigði af 4-3-3. Með Anton sem sívirkan spilandi markmann og þá Davíð, Damir, Elfar og Andra Y í öftustu línu. Á miðjunni var Óliver djúpur og Viktor Karl var hægra megin framan við Óliver. Höskuldur hafði það hlutverk að styðja við Mikkelsen varnarlega því honum var greinilega ætlað að sleppa Herði. Það var áhugaverð skák í gangi milli þjálfaranna. Óskar Hrafn stillti Mikkelsen upp meira vinstra megin sennilega til að herja á svæðið sem Hörður vinstri bakvörður FH skilur eftir opið. Annars voru fremstu þrír hjá Breiðablik mjög fljótandi Kristinn og Brynjólfur róteruðu mikið sín á milli og Mikkelsen sótti mjög inn að marki. Spilaði ekki sem kantmaður og var alls ekki ætlað það. Skemmtileg taktísk nálgun á það að reyna að snúa styrkleika FH-inga sóknarlega í áhugavert skyndisóknar móment.
Munurinn á liðunum
Að horfa á Anton dreifa boltanum undir pressu var afar skemmtilegt og þegar áreyndi í leiknum þá var þetta munurinn á liðunum. Blikarnir gátu haldið boltanum og verið yfirvegaðir á eigin vallarhelmingi. Á meðan FH-ingar gátu það ekki því Gunnar er frábær að verja en að spila er ekki einn af hans styrkleikum.
Anton gerði ákaflega vel í því að finna alla leikmennina í öftustu línu og líka miðjumennina. Þetta gerði það að verkum að Blikunum tókst að stýra leiknum betur og mun oftar að komast inn á vallarhelmingi andstæðinga sinna með markvissum hætti.
FH spilaði einnig 4-3-3 en það líktist meira 4-2-3-1. Gunnar í markinu og öftustu línu skipuðu Hjörtur Logi, Guðmundur K, Guðmann og Hörður B. Á miðjunni voru Daníel og Björn Daníel í umferðarstjórninni og Þórir Jóhann frjálsari þar fyrir framan. Lennon var vinstra megin og Jónatan hægra megin. Það sem var skemmtilegast við nálgun FHinga var að stilla Atla Guðna upp sem falskri 9. Hann tengdi spil milli lína mjög skemmtilega á köflum í leiknum. Hrikalega skemmtileg pæling hjá Óla Kristjáns sem nokkrum sinnum var hársbreidd frá því að bera ávöxt.
Dæmi um Atla Guðna sem falska nýju. FH-ingar vinna boltann á miðjum eigin vallarhelmingi. Finna Atla Guðna milli lína sem spilar í fyrsta út á Jónatan.
Jónatan leggur af stað og pinnar þannig Damir út til vinstri. Atli Guðna keyrir af stað í svæðið sem myndaðist. Elfar þarf að koma yfir til að loka á Atla og Lennon er mættur í sitt svæði milli bakvarðar og hafsents.
Sennilega ætlaði Atli að fara innanvert á Elfar eða spila á Lennon en missti jafnvægið og sóknin fjaraði út.
Leiftrandi fótbolti sem er afleiðing skemmtilegrar taktískra nálgunnar sem nýtir styrkleika leikmannanna.
Leikurinn sjálfur:
FH-ingar byrjuðu leikinn mjög sterkt og saumuðu þétt að Blikunum í upphafi leiks. Fyrstu 20 mínúturnar voru að mestu eign FH-inga og það var snemma ljóst að það stefndi í skemmtilegan leik tveggja mjög góðra liða. Blikarnir náðu ekki takti í sinn leik og gekk illa að ná tökum á leiknum í þessari miklu ákefð sem var í leiknum á þessum kafla. Krafturinn í pressunni hjá FH var mikill og þeir neituðu Blikunum um pláss út um allan völl.
FH-ingar komust svo verðskuldað yfir eftir skemmtilegan undirbúning Þóris Jóhanns á miðjunni eftir innkast FH-inga. Þórir átti mjög góðan leik og býr yfir skemmtilegum eiginleikum, á auðvelt með að snúa á miðjunni með mann í bakinu og getur þannig brotið upp leikinn. Sennilega hentar honum mun betur að spila sem hrein átta í stað þess að vera í sexu hlutverkinu.
Enginn átti fleiri knattrök í leiknum og það var ákaflega skemmtilegt að fylgjast með honum að spila þennan leik. Dæmi um það sem koma skyldi í leiknum kom snemma en þá sýndi Þórir Jóhann skemmtilega mýkt og stefnubreytingu undir pressu.
Boltinn kemur frá hafsent og Þórir Jóhann er með mann í bakinu. Hann tekur á móti boltanum utanfótar með hægri og sprengir inn í svæðið.
Þórir Jóhann var sennilega besti maður vallarins í þessum leik. Lagði upp fyrsta mark FH-inga með því að snúa auðveldlega á Viktor Karl inn á miðjunni og spila á Hjört Loga. Damir braut síðan á Þóri Jóhanni þegar FH fékk vítið sem skilaði þriðja markinu.
Mikkelsen var hins vegar með sýnikennslu í rebba-fræðum. Skoraði tvö mörk og var í lykilstöðu í því þriðja. Alltaf fyrir framan markið að þefa upp færi. Hann sýndi mikil klókindi í hreyfingum og heldur varnarmönnum andstæinganna stöðugt á tánnum með því að herja á blindu hlið þeirra. Þá sýndi hann hvernig klára á færi á fyrsta tempói, sennilega þurfum við að bíða lengi til að sjá svo mikil gæði í tímasetningu hreyfingarinnar og ekki voru gæðin minni í skotinu í öðru marki Blikanna.
Svo virðist sem FH-ingar hafi eytt mikilli orku í byrjun leiks, það mikilli að þeir misstu alveg tökin á leiknum og Blikarnir tóku leikinn alveg yfir og þar munaði miklu um það að geta byggt upp spil úr öftustu víglínu. Nær allir boltar sem komu til baka á markmann FH enduðu sem 50/50 boltar á meðan Blikarnir gátu byggt upp sinn leik og stýrt tempó-inu í leiknum. Það að geta hvílt sig með boltann er ómetanlegt sem taktískt vopn liða.
Blikarnir byggðu sitt spil upp markvisst frá aftasta manni á meðan FH-ingar þurftu að byrja á því að vinna návígi til að koma boltanum í spil þegar Blikarnir náðu að þvinga FH-inga til að spila til baka á Gunnar. Niðurstaða þess voru frekar daprar sendingar fram völlinn og því dvínandi taktur í leik FH-inganna og meira um stuttar samleiksglefsur en langa kafla.
Leikurinn var góð skemmtun þar sem mikið sást af góðum tilþrifum og spilkaflar sem gaman var að fylgjast með. Mikið var rætt um hvort boltinn hefði verið farinn útaf þegar FH-ingar jafna 2-2 en þrátt fyrir að hafa skoðað það atvik margoft var ómögulegt að greina hvort boltinn hafi verið úr leik.
FH-ingar sóttu mikið upp hægra megin frá sér séð þar sem Hörður, JJ og Þórir Jóhann tengdu gjarnan saman. Á meðan Blikarnir bönkuðu á allar dyr FH-inganna. Sem að stærstum hluta til er afleiðing þess að þeim gekk mun betur að byggja upp spil. FH-ingum tókst engan vegin að koma Lennon inn í leikinn og þar spiluðu sennilega inní hversu mikið Blikar héldu boltanum og góðar staðsetningar Elfars og Ólivers. Það varð þess valdandi að Lennon hafði úr litlu að moða allan leikinn.
Skiptingar:
Blikarnir virtust gera taktíska breytingu þegar Kwame kom inná. Þá færðu þeir Mikkelsen í toppinn og Brynjólfur kom aðeins dýpra. Sennilega til að reyna að leggjast meira á óreyndan hafsent FH-inga. Aðrar skiptingar virkuðu nokkuð sem maður fyrir mann skiptingar.
FH-ingarnir skiptu aðeins um nálgun með því að setja Morten Beck inn fyrir Atla Guðna, þar sem þeim gekk bölvanlega að halda boltanum eftir því sem á leið leikinn. Því settu þeir Morten Beck inná til að tengja betur spil í skyndisóknum eftir langar spyrnur fram völlinn, í því er Morten Beck mjög góður.
Mikilvægustu atvik leiksins:
1. Eftir að FH-ingar fóru yfir í upphafi leiks byrjuðu þeir að reyna að stýra leiknum með boltanum og eftir um 27 mínútna leik sveiflaðist valdajafnvægi leiksins. FH-ingar höfðu haldið boltanum á eigin vallarhelmingi en voru hálf kærulausir í því. FH-ingar ætluðu greinilega að ná að draga andann aðeins eftir sterka byrjun á leiknum. Boltanum er spilað á JJ sem er með Óliver þétt í bakinu og það virðist sem brotið sé á JJ, hrinding og hann missir jafnvægið. Óliver nýtir tækifærið og hirðir boltann.
Boltanum er spilað á JJ sem er með Óliver þétt í bakinu og það virðist sem brotið sé á JJ, hrinding og hann missir jafnvægið. Óliver nýtir tækifærið og hirðir boltann.
Óliver gefur fyrir markið á 1.tempó-i. Samkvæmt VAR hefði Mikkelsen sennilega verið rangstæður en að mínu mati eru leikmenn Breiðabliks samsíða og verið sé hártoga rangstöðuregluna með handakrikamælingum og undarlegum hornafallafræðum. Mikil grimmd og ákefð í Blikunum í þessu marki.
2. Eftir að hafa jafnað leikinn tóku Blikarnir frumkvæðið í leiknum og glæsilegasta mark leiksins leit dagsins ljós. Oliver skipti um kant yfir á Davíð sem hafði nægan tíma.
Viktor Karl kom með gott hlaup inn í teiginn sem dróg Guðmann neðar og svæði opnaðist í miðjum vítateignum.
Davíð skilar föstum flötum bolta inn í teiginn og Mikkelsen rykkir inn í svæðið. Hann nær örlitlu forskoti á Guðmund K sem dugar honum.
Thomas hamrar boltann með vinstri fæti óverjandi fyrir Gunnar í markinu. Glæsileg hreyfing hjá honum og gríðarleg gæði í afgreiðslunni. Frábær auglýsing fyrir gæði og skemmtanagildi Pepsi Max deildarinnar. Eins og sést hér að neðan er Guðmundur broti úr sekúndu of seinn sem enn frekar undirstrika gæðin í því sem Mikkelsen gerði.
3. Undir lok leiksins fengu FH-ingar kjörið tækifæri til að stela sigrinum og miðað við þróun leiksins hefði það verið rán um hábjartan dag. Eftir langt innkast Harðar, skallar Morten boltann niður fyrir Jóhann sem keyrir inn í svæðið.
Eftir smá klafs Þóris við bæði Óliver og Viktor hrekkur boltinn til Damirs. Sem var greinilega ekki búinn að meta aðstæðurnar rétt.
Damir ætlar sennilega að snúa út til vinstri þar sem hann hefði lent á Morten, en virðist fá boð um hættu og hættir við sem verður þess valdandi að boltinn hrekkur til baka og beint fyrir fætur Baldurs Loga sem var nýkominn inná sem varamaður fyrir JJ.
Baldur kemst á auðan sjó og er óvænt í dauðafæri. Anton mætir honum vel, stendur og bíður tilbúinn. Úr verður skot sem litaðist aðeins af stressi. Anton á í engum vandræðum með verja skotið. Aðallega vegna þesss hversu yfirvegaður hann var í aðstæðunum. Þarna mættust reyndur og minna reyndur leikmaður sem getur haft afgerandi áhrif á úrvinnslu stöðunnar.
Niðurstaðan leiksins:
Breiðablik mun gera alvarlega atlögu að Íslandsmeistaratitlinum á því leikur enginn vafi. Liðið er vel mannað, vel þjálfað og mikið hungur einkennir þá. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Blikarnir mæta KR-ingum í næstu umferð á útivelli. Það hentar KR-liðinu hiklaust betur að spila þann leik á grasi þar sem flæðið verður minna. Það verður afar áhugavert að sjá hvernig Óskar Hrafn leggur þann leik upp taktískt.
FH-ingarnir náðu ekki að nýta sér góða byrjun í leiknum en sýndu mikla seiglu og reynslu í því að ná einhverju út úr leiknum því þeim gekk ekki vel að stýra leiknum. Það er mikill kunnátta í liðinu og stjórnendum þess. Það mun sennilega skila þeim langt í sumar og það eru frískir ungir menn að koma upp hjá FH-ingum sem er nauðsynleg innspíting orku og hungurs í hóp þeirra.
Athugasemdir