Kerfisbreyting hjá Man Utd? - Nunez var nálægt Sádi - Stórlið vilja Dean Huijsen - Ratcliffe að reka fleiri?
   mið 12. febrúar 2025 22:04
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Naumt hjá Bayern - Milan tapaði
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Þremur síðustu leikjum kvöldsins var að ljúka í Meistaradeild Evrópu og eru allar viðureignirnar enn galopnar fyrir seinni leikina.

Skotlandsmeistarar Celtic tóku á móti þýska stórveldinu FC Bayern og áttu lélegan fyrri hálfleik en frábæran seinni hálfleik.

Celtic varðist mjög vel í fyrri hálfleik en tókst ekki að skapa sér færi. Bayern fékk lítið af færum en Michael Olise skoraði eftir glæsilegt einstaklingsframtak á 45. mínútu, eftir frábæra sendingu upp völlinn frá Dayot Upamecano.

Harry Kane tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks en Celtic var sterkari aðilinn eftir það og skapaði sér hættuleg færi. Daizen Maeda minnkaði muninn á 79. mínútu og fengu heimamenn færi til að jafna en boltinn rataði ekki í netið. Lokatölur 1-2 fyrir Bayern sem er í góðri stöðu fyrir heimaleikinn.

AC Milan heimsótti þá Feyenoord til Hollands og tóku heimamenn forystuna snemma leiks þegar Igor Paixao skoraði með skoti utan vítateigs sem Mike Maignan átti að verja. Boltinn skoppaði skringilega rétt fyrir framan Maignan sem réði af þeirri sök ekki við skotið.

Leikurinn var eftir þetta tíðindalítill þar sem lítið var um færi. Milan var þó aðeins sterkari aðilinn og fékk hættulegri færi en tókst ekki að jafna metin. Santiago Giménez tókst ekki að skora gegn sínum fyrrum liðsfélögum og urðu lokatölur 1-0 fyrir Feyenoord.

Benfica lagði að lokum Mónakó að velli eftir jafnan, tíðindalítinn og markalausan fyrri hálfleik.

Gríski framherjinn Vangelis Pavlidis tók forystuna fyrir Benfica í upphafi síðari hálfleiks og fékk Ali Mohamed Al-Musrati í liði Mónakó að líta seinna gula spjaldið sitt skömmu síðar.

Tíu leikmenn Mónakó réðu engan veginn við gestina frá Lissabon sem óðu í færum. Angel Di María kom inn af bekknum en tókst ekki að skora til að tvöfalda forystuna.

Tíu leikmenn Mónakó vörðust gífurlega vel til að halda voninni á lífi um að komast áfram í 16-liða úrslitin. Lokatölur urðu 0-1 fyrir Benfica sem er í góðum málum fyrir seinni leikinn.

Celtic 1 - 2 Bayern
0-1 Michael Olise ('45 )
0-2 Harry Kane ('49 )
1-2 Daizen Maeda ('79 )

Feyenoord 1 - 0 Milan
1-0 Igor Paixao ('3 )

Monaco 0 - 1 Benfica
0-1 Vangelis Pavlidis ('48 )
Rautt spjald: Moatasem Al-Musrati, Monaco ('52)
Athugasemdir
banner
banner
banner