Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals gat ekki spilað með liðinu í síðustu umferð gegn Víking Ólafsvík vegna veikinda. Hann átti að vera í byrjunarliðinu í þeim leik en gera þurfti breytingu á því rétt fyrir leik.
Sá leikur tapaðist 2-1 og eru Valsarar stigalausir eftir fyrstu tvær umferðirnar.
Sá leikur tapaðist 2-1 og eru Valsarar stigalausir eftir fyrstu tvær umferðirnar.
„Ég er meiðslalaus svo það er ekkert vesen. Ég er allur að hressast og ég vona að ég verði klár í kvöld. Ég fór í vinnuna í gær og það eru batamerki," sagði Haukur Páll en Valur mætir Fylki á heimavelli í 3. umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld. Bæði lið stigalaus.
„Ég horfi á alla leiki með jákvæðum augum, sama hvort liðið sem við mætum sé með núll stig eftir tvo leiki eða sex stig. Það skiptir mig ekki öllu máli. Ég fer inn í alla leiki til að vinna þá ásamt öllum mínum liðsfélögum. Fyrir mína parta skiptir það hvoruguðu liðinu máli að þau séu með núll stig," sagði fyrirliði Vals sem segir það segja sig sjálft að byrjunin á mótinu hafi ekki verið eins og Valsmenn vildu hafa hana.
„Við höfum verið að fá klaufaleg mörk á okkur. Við höfum verið að skapa okkur nægilega mörg færi til að skora mörk. Við erum að gefa of auðveld mörk á okkur og við verðum að laga það sem lið. Ég hef trú á því að það gerist í komandi leikjum."
Einhver umræða hefur skapast um markvörð Vals, Ingvar Þór Kale sem meiddist í síðasta leik og verður frá keppni næstu daga. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í síðustu leikjum Vals.
„Fyrir mína parta er þetta eitthvað til að búa til fyrirsagnir. Ég get bara talað fyrir mína hönd og mitt nafn var einhverntímann nefnt einhversstaðar; Að ég væri ósáttur með Ingvar. Það er bara bull og þvæla," sagði Haukur Páll þegar hann var beðinn um að segja sína skoðun á umræðunni sem hefur verið síðustu daga.
Valur tekur á móti Fylki á Valsvellinum í kvöld klukkan 19:15.
Í kvöld:
18:00 ÍBV-Víkingur Ó. (Hásteinsvöllur)
19:15 Valur-Fylkir (Valsvöllur)
19:15 ÍA-Fjölnir (Norðurálsvöllurinn)
19:15 Stjarnan-Þróttur R. (Samsung völlurinn)
20:00 KR-FH (Alvogenvöllurinn)
Föstudagur 13. maí
20:00 Breiðablik-Víkingur R. (Kópavogsvöllur)
Athugasemdir