Saga sumarsins í Bestu deildinni hingað til hefur verið árangur Vestra. Liðið hefur verið ótrúlega sterkt varnarlega og er sem stendur í öðru sæti með jafnmörg stig og Víkingur sem er á toppi deildarinnar.
Vestri hefur verið gríðarlega sterkt varnarlega og er mjög vel skipulagt lið. Í gegnum tíðina hefur það einmitt einkennt lið Davíðs Smára.
Vestri hefur verið gríðarlega sterkt varnarlega og er mjög vel skipulagt lið. Í gegnum tíðina hefur það einmitt einkennt lið Davíðs Smára.
Það er ekki langt síðan Davíð Smári byrjaði að þjálfa en hann hefur náð merkilegum árangri sem gaman er að skoða.
Hans fyrsta tímabil í þjálfun var með Kórdrengi 2017 og nánast öll tímabilin síðan þá hafa liðin hans bætt sig eins og sjá má hér fyrir neðan. Eina tímabilið sem liðið hans bætti sig ekki á milli ára var þegar Kórdrengir enduðu í fimmta sæti 2022, einu sæti neðar en árið áður.
Árangurs Davíðs Smára:
2017 - 1. sæti í 4. deild (tap í úrslitakeppni)
2018 - 1. sæti í 4. deild (sigur í úrslitakeppni)
2019 - 1. sæti í 3. deild
2020 - 1. sæti í 2. deild
2021 - 4. sæti í Lengjudeild
2022 - 5. sæti í Lengjudeild
Árið 2023 tekur hann við Vestra
2023 - 4. sæti í Lengjudeild (upp í Bestu deildina)
2024 - 10. sæti í Bestu deildinni
2025 - 2. sæti í Bestu deildinni (eftir sex leiki)
Maður dáist að þessu
Vestri vann sigur á Aftureldingu í síðasta leik sínum en það var rætt um það í Innkastinu.
„Það virðist vera djöfullegt að spila á móti þeim, mjög erfitt," sagði Almarr Ormarsson í Innkastinu. „Davíð Smári þekkir það ekkert að vera tvö ár í sömu deild því hann fór alltaf upp með Kórdrengi. Þeir eru búnir að fá á sig tvö mörk í deildinni, það er ótrúlegt."
„Þeir hafa fengið á sig eitt mark á móti Val og eitt mark á móti Breiðabliki. Þeir hafa haldið hreinu á móti FH, ÍA, ÍBV og Aftureldingu," sagði Baldvin Már Borgarsson.
„Vestri er besta liðið í deildinni að harka sigri," bætti Baldvin við í þættinum. „Þessi vinnusemi og kraftur sem Davíð Smári smitar út frá sér í liðin sín, maður dáist að þessu. Þeir eru að gera þetta algjörlega á sinn hátt og á sínum forsendum."
Athugasemdir