Frank vill endurnýja kynni sín við Schade - Guehi eftirsóttur - Upamecano til Liverpool?
   sun 12. október 2025 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Besti leikmaður Keflavíkur að renna út á samningi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fjölnir
Lokahófið hjá Keflavík fór fram á dögunum eftir að karlarnir náðu að koma sér aftur upp í Bestu deildina. Það var svakaleg spenna í lokaumferðum Lengjudeildartímabilsins.

Keflavík náði að tryggja sér umspilssæti á markatölu í lokaumferð deildartímabilsins og gerði liðið frábærlega í umspilinu. Samanlagður 4-2 sigur gegn Njarðvík í undanúrslitum var aðeins forrétturinn fyrir öruggan 4-0 sigur í úrslitaleiknum gegn HK á Laugardalsvelli.

Kári Sigfússon er valinn besti leikmaður tímabilsins í karlaflokki en hann var ekki í byrjunarliðinu þegar Keflavík mætti til úrslita. Honum var skipt inn af bekknum vegna meiðsla í fyrri hálfleik og skoraði Kári svo síðasta mark leiksins.

Kári er bæði besti leikmaður tímabilsins hjá Keflavík og jafnframt sá markahæsti, með 10 mörk í 27 deildarleikum. Þar að auki skoraði hann 3 mörk í 4 leikjum í Mjólkurbikarnum.

Keflvíkingar vonast til að halda Kára áfram í hóp fyrir næstu leiktíð í Bestu deildinni, en þessi öflugi sóknarleikmaður verður samningslaus um áramótin og getur því valið sér næsta áfangastað.

Í kvennaflokki var Salóme Kristín Róbertsdóttir best, en kvennalið Keflavíkur endaði í 8. sæti í Lengjudeildinni. Liðið var þó aldrei í hættu á að falla. Ariela Lewis endaði markahæst með 7 mörk.

Eiður Orri Ragnarsson var þá efnilegastur hjá körlunum og Hilda Rún Hafsteinsdóttir hjá konunum.

Að lokum voru gefin verðlaun fyrir bestu mörk tímabilsins, sem komu bæði gegn Njarðvíkingum.

Marin Mudrazija skoraði flottasta markið í undanúrslitum umspilsins í Njarðvík, á meðan Anita Lind Daníelsdóttir skoraði flottasta markið gegn Grindavík/Njarðvík í Mjólkurbikarnum.
Athugasemdir
banner
banner