Inter á eftir Guehi - Man Utd sýnir miðjumanni Chelsea áhuga - Stórlið sýna miðjumanni Lille áhuga
banner
   sun 12. október 2025 14:10
Brynjar Ingi Erluson
Gerrard nefnir eina verstu ákvörðun í sögu Liverpool - „Trúði ekki því sem var að eiga sér stað“
Það var enginn vinskapur á milli Gerrard og El Hadji Diouf
Það var enginn vinskapur á milli Gerrard og El Hadji Diouf
Mynd: EPA
Liverpool ákvað að kaupa Diouf í stað Anelka
Liverpool ákvað að kaupa Diouf í stað Anelka
Mynd: EPA
Steven Gerrard, fyrrum leikmaður Liverpool og enska landsliðsins, nefndi ein kaup sem félagið gerði þar sem hann hreinlega trúði ekki því sem var að eiga sér stað, en hann ræddi þetta í viðtali við Rio Ferdinand á dögunum.

Sumarið 2002 ákvað Liverpool að fara í það að styrkja hópinn eftir að hafa lent í öðru sæti í deildinni.

Allt stefndi í rétta átt og var þörf á að bæta framherja við liðið, en Nicolas Anelka hafði verið á láni frá Paris Saint-Germain og skoraði fimm mörk í 22 leikjum.

Valið stóð á milli þess að fá Anelka eða El Hadji Diouf, sem hafði átt gott heimsmeistaramót með Senegölum. Liverpool valdi Diouf sem átti síðar eftir að reynast stór mistök en hann skoraði aðeins 6 mörk í 80 leikjum á tveimur tímabilum sínum áður en hann var lánaður til Bolton sem keypti hann síðan eftir vel heppnaða lánsdvöl.

„Við áttum það til að gera skelfileg mistök á leikmannamarkaðnum. Þetta var alveg hraparlegt,“ sagði Gerrard í viðtali við Ferdinand.

„Ég skal gefa þér eitt dæmi. Við áttum möguleikann á því að kaupa Nicolas Anelka (sem hafði verið á láni hjá Liverpool) eða El Hadji Diouf. Við ákváðum að fá Diouf út af fjórum eða fimm leikjum hans á HM þegar við gátum fengið einhvern sem hafði verið að skila sínu í fimm eða sex ár. Þetta var ákvörðunin.“

„Ég veit ekki hver kvittaði undir þessa ákvörðun, en þetta er eitt dæmi þar sem félagið gerði mistök og er þetta eitt stærsta misræmi sem hægt er að ræða um: El Hadji Diouf eða Nicolas Anelka?“

„Anelka kom á æfingar og var bara svalasti maður allra tíma. Mjög svo rólegur og þú vissir bara að hann væri með þessa áru og trú á sjálfum sér.“

„Hann var tilbúinn að vinna og að hjálpa Liverpool að vinna meira eða nálgast ykkur (Man Utd). Anelka kom inn og var gæðaflokki ofar en allir hinir. Síðan er bara ákvörðun tekin og þetta var bara algert misræmi. Þetta er eitt dæmi sem ég get gefið þér þar sem maður hreinlega trúði ekki því sem var að eiga sér stað,“
sagði Gerrard.

Gerrard og Diouf hafa lengi vel eldað grátt silfur saman. Gerrard talaði um það í ævisögu sinni að Diouf hafi verið drullu sama um Liverpool og hefur komið fram frá öðrum leikmönnum að Gerrard hafi ekki þolað Senegalann. Hann og Diouf hafa skotið föstum skotum á milli sín síðustu ár og hefur Jamie Carragher gert slíkt hið sama.

Diouf á ekki afturkvæmt á Anfield eftir allt sem hann hefur sagt um félagið. Hann segist sjá eftir því að fara samið við Liverpool og er sú tilfinningin eflaust gagnkvæm.
Athugasemdir
banner
banner