Man Utd í baráttuna um Wharton - Vilja ekki Tuchel í stað Amorim - Haaland til Real Madrid?
   sun 12. október 2025 15:30
Brynjar Ingi Erluson
Palace búið að ræða við Glasner um nýjan samning
Mynd: EPA
Crystal Palace hefur rætt við austurríska stjórann Oliver Glasner um nýjan samning en þetta staðfesti Steve Parish, stjórnarformaður félagsins, í viðtali við talkSPORT.

Glasner tók við Palace á síðasta ári og tókst að gera það að bikarmeistara á fyrsta tímabili sínu og um leið í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Hann hefur farið ótrúlega af stað á þessari leiktíð og aðeins tapað einum leik, en stærri félög eru farin að horfa til Glasner og viðurkennir Parish að það gæti reynst erfitt fyrir félagið að halda honum,

Samt segir hann að Palace hafi rætt við Glasner um framtíðina, en hann telur stjórann geta lyft félaginu upp á hærra plan og því mikilvægt að allir séu að dansa í sama takt.

„Við höfum átt nokkur samtöl og værum endilega til í að halda Oliver. Við erum að byggja eitthvað, en það skiptir auðvitað Oliver miklu máli að skilyrðin séu upp á tíu.“

„Þetta verður allt að vera á þann hátt að hann geti haldið áfram að njóta vinnunnar og að hann telji það skilyrðin hagstæð. Oliver vill vinna hluti og hefur alls ekki farið leynt með það. Þess vegna er hann í þessum geira.“

„Þannig að ef við getum verið í línu við það sem hann vill þá vonandi getum við látið hlutina gerast,“
sagði Parish.
Athugasemdir
banner